Karfan er tóm
1. Sáning
|
|
2. Spírun
|
|
3. Dreifplöntun (priklun)
|
|
4. Herðing
|
|
5. Útplöntun og staðsetning
|
|
Hér er hægt að fræðast um forræktun lauka, hnýðis og forðaróta
- skref fyrir skref
1. Forræktun
|
|
2. Herðing
|
|
3. Útiplöntun
|
|
Lauk- og hnýðisjurtum er yfirleitt skipt í flokka eftir því á hvaða tíma ársins þær eru settar niður og hvenær þær blómstra. Vorlaukar eru settir niður á vorin og blómstra á sumrin og fram á haust. Haustlaukar eru aftur á móti settir niður að hausti og blómstra á vorin. Plöntur, sem við köllum vorlauka í daglegu tali, þurfa ekki endilega að vera lauk- eða hnýðisjurtir því sumar þeirra hafa einfaldlega gildar forðarætur.
Líffræðilega er enginn munur á vorlaukum og hnýðum og öðrum lauk- og hnýðisjurtum, blómgunartíminn er bara annar. Laukar, hnýði og forðarætur safna í sig næringu, geyma hana yfir hvíldartímann og nota hana svo til að blómstra. Fæstir vorlaukar eða hnýði lifa veturinn af úti hér á landi og verður því að forrækta þau inni áður en þau eru sett út. Erlendis eru vorlaukar yfirleitt kallaðir sumarlaukar vegna þess að þeir blómstra fyrr en hér.
Þegar vorlaukahnýði og forðarætur eru forræktaðar inni á að setja þær í rúmgóðan pott með næringarríkri mold um miðjan mars og fram í maí. Því stærri sem þessar rætur eru, því fyrr þarf að setja þær niður. Bestur árangur næst með því að láta plöntuna standa í sama pottinum allan vaxtartímann. Halda skal moldinni rakri allan vaxtartímann en gæta vel að frárennsli í pottinum því laukar, hnýði og forðarætur fúna standi þau í blautum jarðvegi. Séu hnýðin mjög hörð er reyndar gott að mýkja þau í vatni í 2 til 3 klukkustundir áður en þau eru sett í mold. Líkt og með haustlauka og hnýði á að setja vorlauka og hnýði niður sem nemur tvisvar til þrisvar sinnum þykkt þeirra og þjappa moldinni lauslega í kring. Eftir að laukarnir eru komnir í pott á að setja hann á bjartan stað. Þegar fyrstu blöðin koma í ljós á að flytja pottinn á svalari stað en gæta þess að birta sé nóg. Gott er að gefa áburð þegar vöxturinn er kominn vel af stað og plantan hefur náð vænum 10 sentímetrum á hæð. Seinni hluta maí eða í byrjun júní er kominn tími til að herða jurtirnar með því að setja pottinn út á svalir eða tröppur í 2 til 3 klukkutíma á dag. Útiverutíminn er svo lengdur smám saman þar til hætta á næturfrosti er liðin hjá. Eftir það er óhætt að hafa plönturnar úti allan sólarhringinn.
Vorlaukar, hnýði og forðarætur þurfa bjartan og skjólgóðan stað í garðinum svo að blómin fái notið sín. Jurtir í pottum er auðvelt að flytja í skjól, gerist þess þörf. Það auðveldar þeim lífið og eykur blómgunina. Klípa skal burt visnuð blóm sem búin eru að blómstra. Það kemur í veg fyrir tilraunir til fræmyndunar og eykur blómgun. Fæstar þessara plantna lifa veturinn af úti en þeir sem vilja rækta þær áfram eiga að láta blöðin sölna að fullu og taka svo pottinn inn fyrir fyrsta frost. Geyma skal pottinn með forðarótinni eða rótina sjálfa á þurrum og svölum stað yfir veturinn. Næsta vor er forðarótin sett aftur í pott með góðri mold og þegar búið er að vökva vaknar jurtin af dvala sínum.
Sérlega öflugar og vandaðar tunnur, breyta úrgangi í mold á 8-12 vikum, við kjöraðstæður.
Blöndun er nauðsynleg til að safnkassar virki rétt, bæði til að blanda nýjum úrgangi við þann úrgang sem þegar er byrjaður að rotna og eins til að hraða ferlinu. Auk þess bætir blöndunin við nauðsynlegu lofti, því ferlið kallar á mikla súrefnisþörf. Snúningurinn er auðveldur enda Joracomposter sérhannaður í þessum tilgangi. Ónæg loftun getur valdið vondri lykt í moltugerðinni.
Niðurbrot á lífrænum úrgangi í moltu framkallar hita í gegnum örverur. Mismunandi örverur starfa við mismunandi hitastig. Joracomposter er það vel einangraður að hitinn getur orðið allt að 75 gráður. Innbyggða einangrunin veldur því að það nær þessum hitamun, sem þýðir að örverurnar geta unnið sína vinnu. Slíkt er er ógerlegt í óeinangruðum safnkassa. Einangraður og snúanlegur safnkassi tryggir jafnari hita fyrir öflugra niðurbrot. Þetta er ástæðan fyrir hversu hratt moltan myndast. Hún verður til á 6-8 vikum. Hár hiti Joracomposter gerir hann tilvalinn fyrir eldhúsúrgang jafnt eldaðan sem óeldaðan s.s. fisk, kjöt og allan lífrænan úrgang. Í Joracompost eru 2 hólf sem gerir losun og framleiðslu á moltunni mun auðveldari.
Joracomposter safnkassinn hefur verið prófaður og metinn í verkefni sem 466 heimili tóku þátt í. Niðurstöðurnar hafa verið fullnægjandi eins og sýnt er fram á í skýrslu sænsku umhverfisstofnunarinnar (Report no. 4229 by the Swedish Authority for Environmet Conservation).
Einangraður og hitamyndandi safnkassi með snúningi, fyrir þægileg og einföld not allt árið um kring. Njóttuþessaðsjáeldhúsúrgangbreytastí næringarmiklamoltu. Moltunamánotasemáburð á grasflatir, í blómabeð og potta. Frá eplahýði til fallegra grasflata – taktu þátt í moltugerðar byltingunni!
JK125 |
|
Þyngd | u.þ.b. 29 kg |
Rúmmál | u.þ.b. 125 l ítrar |
Afköst | 10 til 15 lítrar á viku |
Fyrir lítil heimili | 1-4 persónur |
Afköst | 79,000kr |
JK270 |
|
Þyngd | u.þ.b. 38 kg |
Rúmmál | u.þ.b. 270 l ítrar |
Afköst | 25 til 30 lítrar á viku |
Fyrir stærri heimili | Fyrir 4 eða fleiri |
Verð | 99,000kr |
JK 400 | |
Þyngd |
u.þ.b. 68 kg |
Rúmmál | u.þ.b. 400 l ítrar |
Afköst | 50 til 80 lítrar á viku |
Fyrir fyrirtæki | Veitingarstaði, skóla o.s.frv. |
Verð | 199,900kr |
Hér er hægt að nálgast pdf skjal af þessu upplýsingum, ásamt myndum.
Með forsáningu flýtum við uppskeru grænmetis þar sem sumarið á Íslandi er stutt. Gott er að byrja að sá í mars/apríl, þó er það misjafnt eftir tegundum. Yfirleitt eru ágætar upplýsingar aftan á fræpakkningum. Forræktun tekur yfirleitt um 3-6 vikur.
Mælt er með að nota sáðmold, eða sáðmoldarpillur, í sáningarbakka og/eða hólfabakka. Eitt grænmetisfræ gefur af sér eina plöntu. Þó má gera ráð fyrir að einstaka fræ spíri ekki og því er mælt með því að sá nokkrum umframfræjum saman.
Fræin spíra við 15°C og skal leggja dagblaðsarkir yfir meðan spírurnar eru að koma upp til að viðhalda raka. Um leið og spírun er farin af stað er gott að setja bakkana á sólríkan stað, taka dagblaðaarkirna af og halda hitastiginu lágu 10-20°C ef hægt er en þetta fer aðeins eftir tegundum.
Vökvun er mikilvæg, sérílagi á spírunartímabilinu. Magnið getur farið eftir loft raka, sólskynsstundum. Gott er að kanna reglulega rakastig moldarinnar, t.d. með því að stinga fingrinum aðeins ofaní moldina. Frekar er mælt með því að vökva vel og sjaldan en oft og lítið. Á sólríkum dögum þarf að vökva oftar.
Ef sáð er í sáningarbakka þarf að prikla þegar plantan er farin að mynda c.a. 4 blöð. Þá er ein planta sett í hvert hólf í hólfabakka og mælt með að skipta yfir í venjulega gróðurmold.
Þegar ekki er lengur næturfrost, oftast í byrjun júní, eru grænmetisplönturnar færðar út í beð. Gott er að herða plönturnar áður en þær eru fluttar á endalegan stað í garðinum. Þetta er annað hvort gert með því að setja þær út á daginn og taka inn að kvöldi eða flytja þær út í vermireiti (beð með yfirbreiðslu). Til að koma í veg fyrir kuldaskemmdir við upphaf ræktunar, er gott að setja akrýldúk yfir beðið. Dúkurinn er líka vörn gegn kálflugu og gulrótarflugu. Ágætt er að hafa dúkinn yfir fram í miðjan júlí. Passið þó að dúkurinn sligi ekki plönturnar það getur þurft að losa aðeins um hann svo hann lyftist með plöntunum.
Velja skal sólríkan og skjólsælan stað. Áburðargjöf er nauðsynleg þegar plantan er í fullum vexti. Best er að nota lífrænan áburð, t.d. þörungarmjöl, moltu og þurrkaðan hænsnaskít.
Fátt er skemmtilegra en líflegar kryddjurtir í eldhúsglugganum sem gefa góðan ilm í húsið og einstakt bragð í matargerðina. Kryddjurtir má rækta allt árið um kring innanhúss, en flestir hefja ræktun í febrúar/mars þegar sól tekur að hækka á lofti. Góðar upplýsingar um sáningartíma og aðferðir er yfirleitt að finna aftan á fræpakkningum.
Gott er að nota sáðbakka og sáðmold eða sáðmoldarpillur og færa síðan spírurnar yfir í potta með venjulegri pottamold. Hægt er að sá beint í endanlega potta og nota venjulega pottamold en þá er mælt með þunnu lagi af sáðmold ofaná, sérílagi fyrir stærri fræ. Gott er að setja dagblaðsörk yfir pottinn eða sáðbakkann til að viðhalda raka og hita.
Fjöldi fræja fer eftir stærð fræja og stærð potta. Þumalputtaregla fyrir 12 cm pott er að nota 3-5 fræ í hvern pott (t.d. kóriander sem hefur stór fræ) en ef fræin eru mjög lítil þá 10-15 fræ í hvern pott (timian, oregano ofl. lítil fræ). Fræ sem eru mjög lítil er best að láta liggja ofaná moldinni.
Þegar spírur taka að myndast er dagblaðsörkin tekin af og plönturnar settar í endanleg ílát, ef við á. Dreifið úr spírunum og þjappið moldinni varlega að.
Mælt er með að velja fremur sólríkan stað t.d. gluggasyllu. Birta við ræktunina er mikilvæg og kryddjurtir þurfa sólríkan stað. Varast skal þó beina sól meðan spírur eru litlar því þær geta brunnið. Örfáar tegundir s.s. mynta og karsi þrífast í norðurglugga.
Vökvun er mikilvæg sérílagi á spírunartímabilinu. Magnið getur farið eftir raka í loftinu, sólarstundum ofl og breytist þ.a.l. eftir árstíðum. Gott er að kanna reglulega rakastigið í moldinni t.d. með því að stinga fingri aðeins ofaní moldina. Betra er að vökva vel og sjaldnar en oft og lítið en á sólríkum dögum þarf að vökva oftar. Áburðargjöf er nauðsynleg þegar plantan er í fullum vexti, og er t.d. þörungaáburður í vöxvaformi góður kostur.
Venjulegur stofuhiti er ákjósanlegur fyrir nánast allar kryddjurtir. Varist of mikinn hita þegar spírurnar eru litlar því þá geta stilkarnir orðið þunnir og ræfilslegir. Vandamál með hitastig innanhúss skapast einkum á veturna nálægt miðstöðvarofnum sem eru hátt stilltir. Ef miðstöðvarofn er undir kryddhillunni er mælt með að botninn á kryddpottunum liggi ekki beint í bleytu. Þá má setja bakka með leirkúlum eða vikri undir pottana.
Ef vart verður við lús eða hvítflugu má nota skordýrasápu (t.d. frá Safer´s). Hvítflugan dregst að skærum hlutum svo flugnaspjöld í skærum litum geta komið að góðum notum. Einnig er ýmiss konar laukur tilvalinn til að fæla meindýr frá. Hægt er að skera laukinn niður og stinga honum innan um kryddplönturnar eða rækta t.d. graslauk í potti innanum hitt kryddið.
Athuga þarf að ganga ekki of nærri plöntunni þ.e. ekki taka of mikið magn í einu en einnig er gott að hvíla hana á milli t.d. með því að hafa sömu tegundina í tveimur pottum og hvíla þær til skiptis. Mælt er með að klippa framanaf greinum til að viðhalda runnavexti en með örfáar tegundir (t.d. steinselju, graslauk) er betra taka elstu blöðin fyrst.
Síðsumars er hægt að flytja plönturnar aftur inn (lok ágúst áður en hætta er á næturfrosti). Ef plönturnar hafa verið í beði og eru orðnar stórar er hægt að skipta þeim upp í nokkra potta en ekki er gott troða rótum í of litla potta. Á þennan hátt er hægt er að njóta kryddjurtanna frameftir vetri.
Sáning sumarblóma er eitt af vorverkunum. Reikna má með 4-8 vikum þar til hægt er að planta út á vaxtarstað. Þó eru til nokkrar harðgerar, fljótvaxnar tegundir, sem hægt er að sá beint út á vaxtarstað í maí, ef aðstæður leyfa. Aftan á fræpökkunum eru upplýsingar um það ef meðhöndla þarf fræið sérstaklega.
Þegar sáð er í bakka eða potta er handhægast að nota sáðmold, þar sem hún hefur rétta samsetningu og á að vera laus við sjúkdóma og meindýr. Athugið að þvo vel uppúr heitu vatni öll áhöld og potta sem nota skal fyrir sáningu, sérstaklega ef þau hafa verið notuð áður, góður undirbúningur borgar sig til að fá upp heilbrigðar plöntur.
Algengasta aðferðin er að hella 6-7 cm þykku lagi af sáðmold í bakka og þjappa síðan létt yfir svo að yfirborðið sé slétt. Moldin er vökvuð þannig að hún verði vel rök, en ekki blaut. Fræinu er stráð yfir og síðan hulið með léttri moldinni. Þumarfingursregla er að moldarlagið sé tvisvar sinnum þykkara en fræið sjálft. Mjög fíngerð fræ eins og brúðarauga, tóbakshorn og ljónsmunna eru þó ekki hulin.
Annar möguleiki er að nota sáðtöflur, sem eru samanþjöppuð svarðmold eða kókosmold. Þær þrútna út í vatni og mynda nokkurs konar moldarpott með neti utan um. Byrja þarf á að láta sáðtöfluna drekka í sig vatn áður en fræið er sett í moldarpottinn. Ræturnar vaxa gegnum netið og má síðan setja pottinn beint í stærri pott með gróðurmold þegar þar að kemur.
Munið að merkja bakkann vel með nafni plöntunnar, tegund blóma og lit og athugið að halda moldinni mátulega rakri meðan á spírun stendur. Fræ sem eiga að spíra í birtu er sett laust plast yfir, en yfir þau fræ sem eiga að spíra í myrkri er sett laust plast og dagblöð.
Flest fræ spíra best á hlýjum stað (góður spírunarhiti er 18-20°C), en athugið að fylgjast vel með spíruninni og fjarlægið plast og dagblöð um leið og þið sjáið spírur koma út úr fræjum því þá þurfa plönturnar að fá sem mesta birtu og loft. Athugið að jafnvægi þarf að vera á milli birtu og hita. Ef birtan er of lítil miðað við hita verður plantan teygð og veikluleg.
Þegar kímplönturnar fara að skipta blöðum er rétt að dreifplanta. Þá eru plönturnar gróðursettar í góða gróðurmold í potta eða bakka. Best er að gróðursetja þær þannig að kímblöðin séu sem næst moldinni. Hæfilegt vaxtarrými fyrst er 6x6 cm fyrir flestar plöntur. Góð birta er nauðsynleg og athugið að flestar plöntur verða fallegastar ef þær eru ræktaðar við fremur lágt hitastig.
Passið að gleyma ekki að vökva en athugið að fara mjög varlega í áburðargjöf ef þið notið tilbúna gróðurmold, því hún á að innihalda öll næringarefni í réttum hlutföllum. Hætta er á skemmdum á viðkvæmum ungplöntum, ef þær fá of mikið af áburði.
Ef allt hefur gengið vel má síðan planta í beð um mánaðarmótin maí-júni eftir því sem veður leyfir en athugið að gott er að herða plönturnar áður, t.d. með því að setja bakkana eða pottana út á daginn og inn aftur á kvöldin í nokkra daga svo vöxturinn haldi eðlilegum hraða.
Í janúar er upplagt að byrja að huga að sáningu á fjölærum plöntum sem þurfa kuldaskeið til að spíra. Yfirleitt dugar 6-8 vikna kuldaskeið. Þá er hægt að láta pottana standa úti fram í miðjan mars og ætti fræið í flestum tilvikum að spíra vel þegar það er tekið inn í hlýjuna. Dæmi um tegundir sem þurfa kaldörvun eru blágresistegundir og ýmsar tegundir maríulykla.
Þá er líka rétti tíminn til að sá ýmsum tegundum af sumarblómum sem þurfa langan uppeldistíma og ætla ég að gera helstu tegundunum skil hér á eftir.
Stjúpur og fjólur eru ein vinsælustu sumarblómin, enda harðgerð og standa í blóma allt sumarið. Þau eru tvíær en með því að sá í janúar er hægt að fá blóm í maí – júní. Nefna má nokkrar góðar tegundir af stjúpum; Chianti, Chalon Supreme Purple Picotee'og Silver Wings. Góðar fjólu tegundir eru; Magnifico, Yesterday, Today and Tomorrow með blómum sem skipta lit úr hvítu yfir í fjólublátt og Penny Sunrise með skær appelsínugulum blómum.
Ljónsmunnur er fjölær planta en of viðkvæm til að lifa af veturinn hér og því ræktaðuð sem sumarblóm. Hún þarf langt uppeldi og því nauðsynlegt að sá henni í janúar eigi hún að ná að blómstra í byrjun sumars. Flottar tegundir í blönduðum litum eru: Frosted Flames með hvítmynstruðu laufi og Circus Clowns.
Brúðarauga þarf varla að kynna en því er best sáð í janúar. Fræið er örsmátt og plönturnar smáar eftir því í fyrstu. Það er mikil þolinmæðisvinna að dreifplanta smáplöntunum en ágætt að setja þrjár plöntur saman í pott og það kemur vel út að blanda saman mismunandi litum. Cascade og Pendula sortir eru með hangandi vöxt en það er einnig hægt að fá teigðan vöxt á plöntur sem eru ætlaðar í beð með því að rækta þær inni við stofuhita. Það er ágætt að klípa ofan af plöntunum nokkrum sinnum til að þær þétti sig vel. Pendula Sapphire er með bláum blómum með hvítu auga, Blue Cascade er með ljósblá blóm, Blue Splash er með hvítum blómum sem eins og nafnið bendir til eru með óreglulegum, bláum slettum. Virkilega flott með einlitum bláum tegundum. Blue Wings er afburðar falleg með mjög stórum bláum blómum en er sérstaklega viðkvæm fyrir þurrki og þarf því að passa að vökva hana reglulega. Red Cascade er með fjólurauðum blómum. Riviera Lilac er yndislega falleg tegund með lillableikum blómum. White Lady og White Fountain eru báðar með hreinhvít blóm.
Í mars, þegar sól fer að hækka á lofti er tímabært að huga að sáningu kryddjurta. Það sem við sáum í mars þarf ekki neina sérstaka lýsingu. Kryddfræ eru 7-20 daga að spíra, allt eftir tegundum. Það sem til þarf við sáninguna er góð sáðmold, sótthreinsaðir bakkar eða pottar, dagblöð til að setja yfir sáninguna. Gott að setja plasthjálma yfir bakkana til að halda jöfnum hita og raka meðan á spírun stendur. Takið yfirbreiðslur af um leið og fræin byrja að spíra. Þegar fyrstu kímblöðin sjást er kominn tími til að dreifplanta. Viku eftir dreifplöntun er óhætt að gefa veika áburðarblöndu. Þegar plönturnar hafa náð 10-12 cm hæð er kominn tími til að herða þær.
Sumar plönturnar sem eru taldar hér upp eru fjölærar en eingöngu ræktaðar hér á landi sem einærar. Það er raunar hægt að taka þær inn vel fyrir haustið og hafa þær í gluggakistu. Þannig er hægt að nýta þær áfram. Það er svo skemmtilegt með kryddplöntur að þær eru fínar hvar sem er, fallegar í ker, potta og jafnvel innan um fjölæru blómin í garðinum. Svo ef einhver vill vera stórtækur í ræktuninni er ekkert mál að útbúa sérstakan kryddgarð bæði til skrauts og nytja því kryddplöntur eru virkilega fallegar og regluleg garðaprýði.
Njótið kryddjurtanna og munið að hægt er að nota þær ferskar, þurrkaðar og jafnvel frystar eða að setja þær í edik og olíu.
Gangi þér vel !
Þegar sáningu er lokið þarf að úða vel yfir og setja merkipinna með plöntuheitinu og dagsetningu sáningar í bakkann. Látið síðan dagblað eða plastskerm yfir til að halda jöfnum hita.
Ef vart verður við myglusveppi eftir sáningu stafar hann yfirleitt af ofvökvun. Eitt ráð til að fyrirbyggja myglusvepp er að strá örlitlu kaneldufti yfir sáninguna. Þetta hefur dugað furðu vel. Gætið þess vel að ofvökva aldrei. Meðalhófið er best í vökvunni sem öðru. Nú verður að nota biðlundina meðan beðið er eftir spíruninni og spennan vex með hverjum deginum.
Með kveðju
Magnús Jónasson
Skrúðgarðyrkjufræðingur
Það sem mestu skiptir er að þau séu á sæmilega skjólgóðum stað og fái góða sól og vökvun. Þá eru jarðaberjaplöntur sérstaklega viðkvæmar fyrir því að þorna fyrstu vikurnar eftir að þær eru settar niður og svo aftur þegar berin eru að myndast. Athuga þarf að passa sérlega vel uppá vökvunina séu plönturnar hafðar í kerjum eða grunnum jarðvegi.
Algengt er að jarðarberjaplöntur byrji að gefa af sér um miðjan júlí, en því hlýrra sem loftið er, því fyrr koma berin. Þar af leiðandi er nokkuð vinsælt að reyna að flýta fyrir uppskerunni með því að breiða t.d. akrýldúk yfir. Hann heldur hita að plöntunum en hleypir samt vatninu í gegn. Hann hjálpar einnig til við að forða berjunum frá ágangi fugla. Þó getur verið gott að lyfta dúknum yfir hlýjasta hluta dagsins meðan á blómgun stendur til að leyfa flugunum að vinna sitt verk.
Svart plast, jarðvegsdúkur eða jafnvel trjákurl geta líka verið gagnleg hjálpartól, sérstaklega þegar ræktað er í skipulögðum röðum. Það gegnir því hlutverki að halda hita að rótum, raka í jarðvegi og sniglunum frá og er þá dúkur sniðinn (eða kurli dreift) í kringum hverja plöntu fyrir sig.
Jarðarberjaplöntur geta fjölgað sér mjög hratt. Það gera þær með því að skjóta renglum út frá sér ofanjarðar og myndast nýjar plöntur við enda þeirra. Algengt er að þetta gerist tvisvar á sumri. Plönturnar skjóta svo rótum þar sem þær lenda. Því þarf að fjarlægja renglurnar vilji maður ekki að plönturnar dreifi sér út um allt. Hægt að stýra fjölguninni með því að klippa plönturnar af renglunum og færa á góðan stað. Bestu plönturnar eru yfirleitt taldar vera þær sem vaxa af stystu renglunum. Þegar plönturnar eru orðnar 4-5 ára fara jarðaberin yfirleitt að minnka. Er þá tímabært að fjarlægja þær plöntur og leyfa nýjum að taka við.
Jarðarber gera ekki miklar kröfur til jarðvegs, en kjósa helst súran jarðveg (þola illa kalk). Gott er að blanda smá lífrænum áburði við moldina áður en plönturnar eru settar niður. Þó þarf að varast að gefa ekki of mikið, sérstaklega af köfnunarefni, þannig að plönturnar eyði ekki allri orkunni í blaðvöxt. Þá getur verið gott að gefa kalíríkan áburð þegar nálgast blómgun, en það ætti að hjálpa plöntunni að einbeita sér að berjamynduninni.
Plöntur sem settar eru niður að vori byrja yfirleitt ekki að gefa af sér fyrr en ári síðar. Sé ætlunin að setja niður nokkrar plöntur og láta þær fjölga sér er algengt að taki um 3 ár að koma sér upp myndarlegri ræktun.
Þegar skammdeginu lýkur og hlýna fer í veðri fara garðáhugamenn að streyma út í garða sína og ganga í vorverkin. Hér á eftir er stiklað á stóru og farið yfir nokkur algeng vorverk sem undirbúa garðinn fyrir sumarið. Í Garðheimum er fjöldi fagmanna sem er tilbúinn að aðstoða og veita ráðgjöf á öllum sviðum garðyrkjunnar.
Það er heppilegast að ganga í allar stórframkvæmdir á trjám snemma árs eða frá janúar fram í lok mars. Á þessu tímabili er gott að saga stórar greinar áður en tréð vaknar til lífsins. Birki og Hlynur eru meðal þeirra trjáa sem blæða nokkuð við vorklippingar, því er best að klippa þau á tímabilinu janúar til mars, áður en frost fer úr jörðu.
Gott er að klippa limgerði snemma á vorin áður en þau fara að laufgast, auðveldara er að gera sér grein fyrir lögun limgerðis á þessum tíma. Það fer best á því að klippa limgerði í svokallað A-form, þar sem neðsti hlutinn (næst jörðu) er sverastur að ummáli og efsta hlutann (næst sólu) minnstur að ummáli. Með því jafnast dreifing sólarljóss á plöntuna.
Best er að fella tré á vorin, áður en þau laufgast. Mikilvægt er að leita til fagmanna áður en ráðist er í slíka framkæmd svo ekki hljótist tjón af. Eftir að tré hefur verið fellt, s.s. ösp er ráðlagt að setja Roundup í sárið (trjábotninn sem eftir verður.) Með því er plantan drepin niður í rót sem fyrirbyggir áframhaldandi rótarskot og að plantan verði til vansa í garðinum.
Það er í lagi að klippa harðgerðari rósir snemma á vorin, s.s. Dornrós, Hansarós, Meyjarós, Hjónarós, Fjallarós og Þyrnirósir.
Betra er að bíða með viðkvæmari tegundir fram í maí eða þar til þær eru farnar að sýna lífsmark.
Gott er að fjarlægja myrkrasprota, þykkar greinar í miðju rósarinnar, en halda eftir fínni greinum, því á þær koma rósarblómin.
Oft er fyrsta vorverk garðeigenda að ráðast á grasflötina og þann mosa sem hefur myndast yfir veturinn. Mosi getur dafnað við mun lægra hitastig en grasið sjálft og því á hann auðvelt með að ná yfirhöndinni yfir köldu mánuðina.
Þegar frost er að fara úr jörðu er mosinn oft laus og hægt að fjarlægja hann með garðhrífu. Þegar búið er að fara yfir flötina með hrífu er gott að stinga aðeins í flötina með gaffli, til að loft, kalk og áburður eigi auðveldari leið niður í jarðveginn.
Þegar líður á vorið getur verið erfiðara að ná mosanum, þá er hægt að leigja sér þar til gerðan mosatætara. Hann gerir jafnframt litlar holur í flötina sem hefur sömu verkan og að stinga með gafflinum.
Að þessum aðgerðum loknum er gott að dreifa kalki á flötina. Við mælum með "Túrbó Kalki" frá Áburðarverksmiðunni.
Eftir viku er síðan kominn tími til að bera áburð á flötina, annað hvort tilbúinn áburð eins og Blákorn eða lífrænan áburð, t.d. þörungamjöl eða búfjáráburð. Gott er að gefa til skiptis lífrænan og tilbúinn áburð. Mikilvægt er dreifa vel úr áburðinum og fyrirbyggja að áburður eða kalk sitji saman í hrúgum á flötinni. Við það brennur flötin og ljótir rauðir og gulbrúnir flekkir myndast. Best er að bera á í þurru veðri.
Í lok maí eða byrjun júní er síðan tilvalið að strá grasfræi yfir flötina til að þétta hana og bæta hraðar upp fyrir sárin sem mosinn skilur eftir sig.
Það er margt svipað með áburðargjöf á grasflöt og öðrum hlutum garðsins. Gott er að gefa garðinum tilbúinn áburð og lífrænan búfjáráburð á víxl. Megin reglan er að gefa áburð einu sinni í mánuði í maí, júní og júlí.
Lauf, mosi og greinar skýla plönunum yfir veturinn og því mikilvægt að leyfa því að liggja fram á vor. Gott er að huga að beðhreinsun þegar frost er að fara úr jörðu en hlífa þó viðkvæmari tegundum þar til næturfrost hættir.
Í Garðheimum er gott úrval af grænmetisfræjum og upplagt að huga að forræktun á grænmeti í byrjun apríl.
Kartöfluútsæði þarf að láta spíra áður en það er sett niður. Gott er að láta kartöflur spíra í birtu en ekki í miklum hita. Með því fást stuttar, þykkar og kröftugar spírur.
Það hefur færst mjög í vöxt á síðustu árum að garðeigendur noti safnkassa til að safna lífrænum úrgangi og skapar þannig sinn eigin jarðveg sem gott er að blanda við moldina í garðinum.
Þeir sem ekki hafa safnkassa geta grafið holu fyrir úrganginn. Þá þarf að sáldra mold milli laga til að tryggja súrefnisflæði um holuna, slíkt flýtir fyrir rotnunarferlinu.
Vorlauka, s.s. begóníur, dalíur, gladíólur og liljur, þarf oft að forrækta inni. Flestir vorlaukar blómstra síðsumars og því er forræktun nauðsynleg til að tryggja blómstur fyrir fyrstu haustfrost.
Vorlaukarnir koma í Garðheima í byrjun mars.
Skemmtilegt er að sá fyrir sínum eigin sumarblómum. Oft borgar sig að sá og forrækta inni. Algengt er að reikna með 4-8 vikum þar til hægt er að planta, alísu, morgunfrú og flauelsblómi, út á vaxtarstað. Aðrar plöntur þurfa lengri tíma, s.s. stjúpa, silfurkambur og petúnía. Aftan á fræpökkunum eru góðar upplýsingar sem styðjast má við um meðhöndlun hverrar tegundar.
Hér má sjá kennslumyndband hvernig best er að umpotta pottaplöntum.
Mjög algengt er að mosi plági grasflatir hér á landi. Það sem helst virkar gegn mosanum eru birta og rétt næring, en mosi þolir illa sólarljós og þrífst ekki vel í sendnum eða kalkríkum jarðvegi. Því getur verið nauðsynlegt að slá mjög reglulega yfir sumarið til að hleypa birtunni niður að rótum, raka upp mosann og vera duglegur að bera kalk á flötina. Gott er að bera grasfræ í bletti sem geta myndast þegar mosinn er rakaður upp, sem og bera köfnunarefnisríkan áburð, s.s. graskorn, sem eykur vöxtinn. Þá má heldur ekki gleyma að vökva flötina, en ef hún þornar um of verður grasið gult og hart viðkomu og þar af leiðandi veikara sem auðveldar mosanum leið aftur upp. Einnig er hægt að fá mosaeyði til aðstoðar í baráttuna gegn mosanum. Til lengri tíma eru það umhirðan og þolinmæðin sem vinna best á mosanum.
Íslendingar byrjuðu að rækta Kartöflur Solanum tuberosum fyrir c.a. 255 árum. Birni Halldórssyni prófasti í Sauðlauksdal við Patreksfjörð er oft eignaður heiðurinn af fyrstu kartöflurækt hér á landi. Það mun þó ekki vera með öllu rétt því sænski baróninn Frederich Wihelm Hastfer var aðeins á undan Birni og setti niður kartöflur á Bessastöðum vorið 1758. Björn pantaði kartöflur frá Danmörku sama ár og setti þær niður 1759.
Það tekur 4.-6.vikur fyrir kartöfluútsæði að spíra við 10-15°C. Kartöflur eru yfirleitt settar niður í byrjun maí.
Gullauga en þær kartöflur eru hnöttóttar, stundum aflangar, nokkuð breytilegar að lögun, með gulhvítt hýði en gular að innan. Blómin ljósrauðfjólublá. Þetta eru bragðgóðar, þurrefnisríkar kartöflur. Þessi tegund er næm fyrir myglu og stöngulsýki og er í meðallagi snemmvaxin.
Rauðar íslenskar eru hnöttóttar, ögn flatvaxnar með mörgum djúpum augum. Hýðislitur er rauður eða bleikrauður, hvítur eða fölgulur oftast með rauðum hring. Þær þurfa langan vaxtartíma og eru bragðgóðar og mjöllitlar. Þær eru næmar fyrir myglu.
Helga er yrki sem er upprunnið frá Unnarsholtskoti í Hrunamannahreppi, Árnessýslu. Þáverandi húsfreyja þar, Helga Gísladóttir taldi sig hafa fundið gras með nokkrum smá kartöflum í garði sínum, en þar höfðu verið Gullauga og Eyvindur. Hún fór að rækta þessar kartöflur sérstaklega og þá kom í ljós að þær voru stökkbreytt afbrigði af þessum tveimur áðurnefndu yrkjum. Nýju kartöflurnar fengu nafnið Helga. Þessar kartöflur eru hnöttóttar, stundum dálítið aflangar. Hýðislitur er rauðbleikur en augu eins og á Gullauga. Að innan eru þær gular. Þær eru heldur fljótvaxnari en Gullaugað og eru mjög þurrefnaríkar, mjög góðar matarkartöflur. Þeim er hætt við stöngulsýki.
Premier Kartöflur eru aflangar, dálítið flatar, hýðislitur er ljósgulur en að innan eru þær gular eða fölgular. Frekar stór, fljótvaxta og mjöllítil. Hún er mjög góð bökunarkartafla.
Kartöflukveðja
Magnús Jónasson
Skrúðgarðyrkjufræðingur
Tré eru föst í jörðinni og þess eðlis að þau flytja sig ekki úr stað af sjálfsdáðum. Stundum kemur upp sú staða, fyrir einhverjar sakir, að tré henta ekki lengur á þeim stað sem þau standa. Breyta þarf skipulagi eða þá að tré sem einu sinni var lítill kvistur hefur vaxi og breyst í stór og mikið tré sem skyggir á sól og lokar fyrir útsýni. Við slíkar aðstæður er tvennt í boði. Fella tréð eða flytja það ef það er hægt.
Þegar ákvörðun um að flytja tré er tekin er einkum þrennt sem hafa þarf í huga;
Allra best er að hefja undirbúning fyrir flutningi trjáa ári fyrr en flutningurinn þeirra fer fram. Fyrra árið á að grafa holu og rótarskera hálfan hring umhverfis tréð. Stærð rótarhnaussins sem fylgir trénu fer eftir stærð þess. Þumalfingurreglan segir að margfalda eigi þvermál stofnsins með tíu og rótarstinga í þeirri fjarlægð frá stofninum. Hafa verður í huga að tré með stóran rótarhnaus eru mjög þung og taka verður tillit til þess þegar tré eru rótaskorinn. Ef um mjög stór tré er að ræða er óvinnandi vegur að flytja þau nema með öflugum vinnuvélum. Því er gott að að sýna fyrirhyggju og flytja tré áður en þau verða of stór.
Þegar búið er að grafa 40 til 50 sentímera djúpan hálfhring kringum tréð og klippa á ræturnar á að fylla holuna með lausum jarðvegi. Hafa skal rótarskurðinn sem allra hreinast og gæta þess að brjóta ekki rætur að óþörfu.
Undirbúa á jarðveginn á þeim stað sem tré á að standa í framtíðinni ári áður en tréð er flutt. Stinga skal upp jarðveginn og blanda hann með lífrænum jarðvegi. Ári seinna er tré rótarstungið hinum megin og hnausnum pakkað í striga eða jarðvegsdúk.
Gæta verður þess að sem minnst af jarðvegi hrynji af rótunum meðan á flutningi stendur svo að ræturnar skaðist ekki að óþörfu. Einnig þarf að passa vel að rótarhnausinn þorni ekki í flutningi. Ef flytja á tréð langa leið í opinni kerru eða á palli er nauðsynlegt að pakka því í striga til að varna því að laufið vindþorni á leiðinni. Rætur þola ekki beina sól og því mikilvægt að hlífa hnausnum við beinu sólskini.
Til að auðvelda niðursetningu trésins á nýja staðnum er best að hafa holuna sem það fer í rúma. Það auðveldar alla vinnu og kemur í veg fyrir að rótum sé þvingað ofan í holuna. Jarðveginn kringum hnausinn verður líka lausari í sér eftir að tréð er komið niður og auðveldar því að skjóta rótum. Ekki má setja tré dýpra en það stóð áður, sumar tegundir þola það að vísu en aðrar alls ekki. Til að tryggja að tré standi af sér veður og vinda fyrst eftir gróðursetningu og vaggi ekki til í holunni verður að reka niður stoð við hliðina á því og binda tréð við hana með gúmmíi.
Eftir að búið er að koma trénu fyrir í holunni og þjappa jarðveginum gætilega að hnausnum á að vökva vel og gæta þess að hnausinn þorni ekki fyrstu vikurnar eftir gróðursetningu.
Að jafnaðir er talið betra að flytja tré á vorin, þau ná þá að skjóta rótum á nýja staðnum yfir sumarið og festa sig fyrir veturinn. Í góðu árferði geta rætur trjáa vaxi frá því í apríl og fram í október og því ættu tré sem er flutt snemma að getað fest sig í jarðveginum fyrir næsta vaxtarskeið. Hvort sem tré eru flutt að vori eða hausti verður að gæta þess að staga þau vel niður svo þau falli ekki um koll.
Heimild: Árstíðirnar í garðinum.
Vilmundur Hansen
Skiptiborð: 540 3300
verslun@gardheimar.is
Opið frá kl 10 - 19 virka daga og 11 - 19 um helgar.
STIHL verslun opin frá kl 8.00-16.00 alla virka daga