Karfan er tóm
Nordmannsþinur er hið sígilda jólatré til margra áratuga og sú tegund sem flestir velja. Hann hefur fagurgrænan lit á mjúkum nálunum, er barrheldinn og getur verið mjög þéttur. Þessi tegund er ekki ræktuð á Íslandi og því flutt inn til landsins fyrir hver jól frá reyndum jólatrésbónda í Danmörku.
Rauðgreni er sú tegund sem lengst hefur verið notuð sem jólatré hér á landi. Með réttri meðhöndlun er það frekar barrheldið og þannig hægt að halda ferskgrænum nálunum betur á trénu. Ilmurinn er mjög góður og oft hefur rauðgreni þetta ‘ekta’ jólatréslega vaxtarlag, píramídlaga og þétt. Auk þess er það frekar nett og því ekki mjög plássfrekt.
Stafafuran er einstaklega falleg sem jólatré og ilmurinn sérstaklega góður. Hún er að koma sífellt sterkari inn sem jólatré fyrir þá sem kjósa örlítið annað vaxtarlag en hið sígilda píramídalaga tré. Stafafuran er einnig barrheldinn og heldur fagurgrænum nálunum vel fram yfir áramót.
Hér má sjá myndband varðandi meðhöndlun jólastjörnu.
Hér má sjá hvernig meðhönda má lifandi jólatré.
Hér má sjá kennslumyndband hvernig best er að umpotta pottaplöntum.
Plöntur beita margvíslegum leiðum til að lifa veturinn af. Einærar plöntur lifa af sem fræ. Séu aðstæður óhagstæðar geta fræ sumra tegunda legið í dvala í jarðveginum í nokkur ár en að jafnaði spíra fræin að vori, vaxa upp og blómstra og mynda fræ sem fellur að hausti. Tvíærar plöntur safna forða í rótina á fyrra ári og rótin lifir veturinn af. Á öðru ári blómstrar plantan og myndar fræ. Hringrásin heldur áfram. Margar tegundir fjölærra plantna og laukjurta beita svipaðri aðferð. Þær vaxa upp að vori, vaxa og dafna yfir sumarið, safna forðanæringu í rótina eða laukinn, sölna að hausti og lifa í dvala neðanjarðar yfir veturinn. Þar sem snjór liggur eins og teppi yfir jarðveginum eru plönturnar vel varðar fyrir umhleypingum og grasbítum sem byggja lífsafkomu sína á þeim yfir veturinn.
Tré og runnar sölna ekki á haustin og þurfa því að beita öðrum ráðum til að lifa veturinn af. Sum tré eru sumargræn en önnur græn allt árið. Lauf sígrænna trjáa nefnist barr, er yfirleitt langt og mjótt og með vaxhúð sem dregur úr útgufun.
Fyrir lauffall á haustin draga flest lauftré blaðgrænuna úr blöðunum og senda hana niður í rótina til geymslu, rétt eins og hagsýnir heimilishaldarar safna vetrarbirgðum í búrið sitt. Blaðgrænan er byggð upp af efnum sem trén eiga ekki greiðan aðgang að og þurfa að eyða mikilli orku í að framleiða. Eftir í blöðunum verða efni sem trén hafa minna fyrir að búa til. Efnin sem eftir verða eru gul eða rauð og eru ástæðan fyrir því haustlitur trjánna er yfirleitt í þeim litum.
Á haustin er að finna í brumi trjáplantna fullþroskaðan vísi að vexti næsta árs. Vaxtarvísirinn er vel geymdur í bruminu og það ver hann fyrir vetrarkuldanum. Frost að vori, eftir að brumið hefur opnað sig, getur skemmt vaxtarvísinn varanlega.
Til þess að tré laufgist að vori þarf lofthiti að vera kominn upp fyrir ákveðið lágmark en í öðrum tilfellum þarf daglengd að hafa náð ákveðnum klukkustundafjölda. Langir hlýindakaflar á veturna geta því vakið ýmsar trjátegundir, einkum frá suðlægari slóðum þar sem vorar fyrr en á Íslandi, af dvala sínum og blekkt tré til að halda að það sé komið vor. Þegar slíkt gerist eru miklar líkur á frostskemmdum ef það kólnar hratt aftur. Lítil hætta er á þessu hjá plöntum sem koma frá svæðum sem eru á næstu eða sömu breiddargráðum og Ísland.
Hægfara kólnun best
Ólíkt dýrafrumum hafa frumur í plöntum svokallaðan frumuvegg sem liggur utan um frumuhimnuna. Veggurinn er stinnur, hann verndar frumuna og kemur að hluta til í staðinn fyrir stoðgrind. Í gegnum frumuvegginn síast vatn og næringarefni.
Kólni hratt er hætt við að vökvinn í plöntufrumunni frjósi. Við það eykst rúmmál hans og hætta á að frumuveggurinn rifni en það leiðir til kalskemmda. Miklu máli skiptir að plöntur kólni það hægt á haustin að vatn nái að komast út úr frumunum í þeim takti sem eðlilegastur er fyrir hverja tegund. Dæmi er um að snögg kólnun niður í 10°C hafi drepið tré sem annars þola kuldann allt að níutíu frostgráðum. Stutt haust valda því að plönturnar ná ekki að mynda eðlilegt frostþol og eru því viðkvæmari en ella.
Of mikil útgufun getur einnig verið hættuleg fyrir plönturnar. Á vorin, þegar sólin skín og jörð er frosin, ná plönturnar ekki að bæta sér upp þann vökva sem þær tapa við útgufun og því hætta á ofþornun. Hér á landi þekkist þetta best hjá sígrænum trjám þegar barrið verður brúnt á vorin.
Jurtir sem eiga náttúruleg heimkynni á norðurslóðum eða hátt til fjalla eru yfirleitt lágvaxnar og með öflugt rótarkerfi sem getur verið allt að þrisvar sinnum víðfeðmara en sá hluti jurtarinnar sem er ofanjarðar.
Þar sem vaxtartími er stuttur mega plönturnar engan tíma missa og verða að hefja vöxt strax og veður leyfir. Langur sólargangur yfir sumarmánuðina lengir vaxtartímann verulega, enda nýta plönturnar hann til hins ýtrasta. Margar norðlægar tegundir mynda þúfur, eins og lambagras og geldingahnappur, og geta með því móti haldið hærri hita og nýtt sólarljósið betur.
Sígræn tré hafa það fram yfir sumargræn að þau geta hafið ljóstillífun um leið og hiti er orðinn það mikill að þau vakna af dvala. Talið er að smávaxnar og sígrænar jurtir geti ljóstillífað undir snjó og lengt þannig vaxtartímann.
Nokkrar tegundir trjáa, til dæmis aspir, geta notað blaðgrænu í berki, stofni og greinum til ljóstillífunar þegar aðstæður eru hagstæðar á veturna.
Val á móðurplöntum skiptir miklu máli þegar teknir eru græðlingar hvort sem það er gert að vetri eða sumri. Planta sem vex upp af græðlingi er erfðafræðilega eins og móðurplantan og kallast klónn. Algengast er að nýta ársprotann en hæglega má notast við tveggja eða þriggja ára greinar af víði og ösp. Heppileg lengd græðlinga er 15 til 20 sentímetrar en sverleikinn getur verið breytilegur eftir aldri greinanna. Varast skal að taka sprota sem eru grennri en 5 eða 6 millimetrar í þvermál.
Best er að geyma græðlinga í kæla við 1º C. Þeir sem ekki hafa aðstöðu til þess geta geymt græðlingaefni óklippt í skugga og á svölum stað og gott er að hylja græðlingana með sandi eða mosa.
Græðlingarnir sem geymdir eru lengi verða iðulega fyrir vökvatapi og því gott að setja þá í vatn sólarhring áður en þeim er stungið niður. Raðið græðlingunum lóðrétt í ílátið þannig að brumin vísi upp en ekki stinga þeim á kaf.
Gott er að stinga upp ræktunarbeð að hausti og blanda safnhaugamold, sveppamassa eða húsdýraáburði í jarðveginn. Nauðsynlegt er að setja svart plast yfir beðið og fergja það með sandi eða möl og stinga græðlingunum í gegnum það. Plastið heldur jöfnum raka í beðinu, dregur til sín hita og heldur illgresi í skefjum.
Hæfilegt bil milli víðigræðlinga í beði eru 10 til 12 sentímetrar og 15 til 20 sentímetrar milli raða. Græðlingunum er stungið niður og eitt til tvö brum látin standi upp úr.
Hægt er að stinga græðlingunum beint í potta eða fjölpottabakka en þegar slíkt er gert er lengd þeirra minni, 10 til 12 sentímetrar. Skjól á ræktunarstað er nauðsynlegt þar sem vindur eykur uppgufun og vatnsþörf plantanna. Gott að raða pottunum þétt og hreykja jarðvegi að úthlið þeirra til að varna því að ystu pottarnir þorni.
Græðlingunum er stungið niður þannig að 1/4 standa upp úr jarðveginum eða tvö til þrjú brum á víði og eitt brum á ösp. Gott er að strengja hvítt plast yfir pottana þar til græðlingarnir hafa rætt sig. Munið að lofta í heitu veðri. Ekki er æskilegt að láta græðlingana vera meira en eitt ár í pottum.
Ef víðigræðlingunum er stungið niður á endanlegan vaxtarstað skal hafa 30 til 35 sentímetrar á milli þeirra en 50 sentímetrar milli grófgerðra tegunda í skjólbelti.
Nú þegar vetur er genginn í garð og snjórinn hefur lagst yfir gefa sígrænar plöntur kærkominn lit í tilveruna. Úrval sígrænna plantna einskorðast ekki við barrtré og runna, en ég ætla að láta nægja að fjalla um nokkrar tegundir í þeim hópi að þessu sinni.
Greni og fura eru algengustu sígrænu trjátegundirnar en flestar þeirra verða mjög stórvaxnar og henta ekki í litla garða. Ég ætla að nefna nokkrar fallegar tegundir sem eru nógu nettar til að prýða garða af hvaða stærð sem er og nógu harðgerðar til að þær geti lífgað upp á garðinn yfir vetrarmánuðina án vetrarskýlis. Reyndar geta jarðlægu tegundirnar horfið undir snjó þegar snjóar mikið en það er mikil prýði af þeim þegar snjólétt er.
Það er ekki um margar smávaxnar grenitegundir að velja en þó eru til dvergvaxin afbrigði af tveimur tegundum sem hafa verið ræktuð hér. Fyrri tegundin er hvítgreni, Picea glauca. Yrkið Conica sem hefur fengið nafnið keilugreni, vex mjög hægt og verður aldrei meira en lítil, nett keila. Það er mjög fallegt, með fallega ljósgrænt barr en því miður heldur viðkvæmt og þarf mjög skjólgóðan stað í garðinum. Hin tegundin er Rauðgreni og eru nokkur dvergvaxin yrki til af því sem eru öll jarðlæg. Það algengasta, Nidiformis, hefur fengið nafnið hreiðurgreni.
Það er eins með fururnar og grenið, þær hafa tilhneigingu til að verða miklar um sig bæði á hæð og breidd. Af þeim furutegundum sem vaxa sem einstofna tré er broddfuran einna nettust, 5-10 m á hæð og vex mjög hægt. Fjallafura, er enn nettari, aðeins 1-3 m og eru tvær undirtegundir sem helst eru ræktaðar: fjallafura, (P. mugo var. mughus) sem verður rúmur meter á hæð og dvergfura (P. mugo var. pumilio) sem er enn lægri. Runnafura (P. pumila) er önnur smávaxin tegund sem vex í báðum grasagörðunum en hún er mun sjaldgæfari í ræktun og hef ég ekki rekist á hana í garðyrkjustöðvunum. Virkilega falleg og eftirsóknarverð tegund.
Taxus – ýviður er ættkvísl sem er tiltölulega ný í ræktun. Dvergjapansýr (Taxus cuspitata var. nana), Ýviður Sommergold (T. Baccata) og Garðaýr Hillii (T. x media) hafa allar reynst ljómandi vel. Hillii er með mjög fallega dökkgrænt barr og uppréttan vöxt en Sommergold skartar gulgrænu barri á nývexti sem verður síðan ljósgrænt þegar það eldist. Hann vex meira á breiddina en hæð.
Það er komin lengri reynsla á ræktun einis (Juniperus). Íslenski einirinn er sjaldan ræktaður í görðum en til er ljómandi fallegt jarðlægt afbrigði af honum Repanda sem er vel þess virði að rækta. Það er grænna en himalayaeinirinn (J. squamata) sem er algengastur í ræktun og er oftast bláleitari. Mayeri er upprétt sort sem getur orðið nokkuð stór um sig. Blue Star og Blue Carpet eru báðar mjög bláleitar eins og nöfnin bera með sér, Blue Star verður lágvaxinn, hnöttóttur runni á meðan Blue Carpet breiðir úr sér eins og teppi. Holger er annað jarðlægt yrki en það skartar ljósgrænu barri á nývextinum sem er mjög fallegt. Fleiri einitegundir eins og t.d. kínaeinir eru líka í ræktun hér en eru heldur viðkvæmari en þær sem nefndar hafa verið.
Sýprus – Chamaecyparis er heldur viðkvæmur og oftast ræktaður í pottum sem sumarplanta, en þó eru örfáar tegundir sem hafa staðið sig sæmilega vel. Má þar nefna alaskasýprusinn (C. nootkatensis) sem getur náð a.m.k. 1-2 m hæð á vel skýldum stöðum. Fagursýprus Stardust verður ekki hávaxinn, en hann hefur staðið sig sæmilega vel úti í garði hjá mér. Ég þurfti reyndar að skýla honum framanaf en hann er farinn að pluma sig ágætlega núna og þroskaði meira að segja köngla í sumar. Hann er fallega ljósgrænn. Sýprus þolir ekki þurrk og því hefur mér reynst best að rækta hann úti í beði. Sé hann ræktaður í pottum verður að passa að moldin haldist rök allan veturinn.
Síðasta tegundin sem ég ætla að nefna er Vaxlífviður. Hann vex mjög hægt, er sæmilega skuggþolinn og eins og sýprusinn þolir hann ekki þurrk. Hann þrífst ljómandi vel á skjólgóðum stað.
Þó flestar grenitegundir verði of stórvaxnar með tímanum fannst mér nauðsynlegt að hafa eitt grenitré í garðinum til að skreyta fyrir jólin. Blágreni varð fyrir valinu og með klippingu má halda aftur af vextinum í þónokkuð mörg ár. Það er fátt fallegra en ljósum skrýtt grenitré þakið snjó.
Rannveig Guðleifsdóttir
Þegar við höfum haft alla fallegu haustlitina fyrir augunum eru oft mikil viðbrigði þegar fyrsta lægðin kemur með miklum hvelli, rigningu, jafnvel snjókomu og ofsaroki. Þá fýkur allt sem fokið getur. Sumir hafa verið svo forsjálir að taka alla lausamuni inn þ.e.s. borðið, sólstólana, grillið, trampólínið o.fl. sem hefur veitt ánægju um sumarið. Við búum við þannig veðurlag að nauðsynlegt er að fjarlægja hlutina eða festa örugglega það sem verður að vera úti.
Að gróðrinum þarf líka að hyggja á haustin. Flestar fjölærar plöntur þurfa ekki sérstaka skýlingu, en ef þær eru í pottum eða kerjum má flytja þær í skjól, en muna samt að vökva þær reglulega svo þær ofþorni ekki. Viðkvæmustu plöntunum verður þó að skýla fyrir veðri og vindum. Sem betur fer eru kjarkaðir einstaklingar, ræktendur og framleiðendur alltaf að prófa sig áfram með nýjar tegundir. Það er sjálfsagt að skýla þeim vel yfir vetrartímann meðan ekki er vitað nákvæmlega hvernig þær þola veðráttuna hér. Það er hægt að gera með laufum sem fallið hafa af trjám, trjákurli, smáum greinum, hálmi eða jafnvel með því hvolfa potti eða einhverju álíka yfir meðan plönturnar eru litlar.
Sígrænn gróður þarf aðhlynningu fyrir veturinn. Hann heldur laufblöðum og nálum allt árið og þess vegna er alltaf einhver starfsemi í þessum græna gróðri þó hún sé í algjöru lágmarki á veturna. Mesta hættan á skemmdum er þegar jörðin er gaddfreðin og plantan nær ekki að taka upp vatn. Sólin getur skinið skær og heit, þó frost sé og þá er plöntunum hætt við þurrkskemmdum. Skemmdirnar lýsa sér þannig að nálar og laufblöð verða brúnleit og detta af. Þar sem fyrstu árin eru plöntunum erfiðust er nauðsynlegt að skýla þeim meðan vel meðan rótarkerfið og plantan öll er að þroskast. Þetta á við um plöntur eins og t.d. greni og furu.
Besta aðferðin við að skýla sígrænum trjám og runnum er að reka niður 3.-4. staura kringum plöntuna og strengja striga utaná, allan hringinn. Gott að festa strigann á staurana með heftibyssu. Striginn skyggir, loftar, hleypir vatni að og kælir plöntuna niður þegar sólin er sterkust. Allar lyngrósir eru sígrænar og þeim þarf að skýla. Gott að setja laufblöð kurl eða mold að stofni. Þetta sama á við um allar ágræddar rósir. Snjór er ein besta vörnin fyrir trjáplöntur og runna en getur þó orðið svo mikill að greinar brotni undan þunganum. Eina leiðin til að fyrirbyggja það er að hrista snjóinn af og létta þannig á snjóþyngdinni. Ræktandi þarf að muna að vorin eru hættulegasti tími fyrir sígrænar plöntur. Þegar mikil útgufun er og sólin skín þá er mesta hættan á að sígrænu plönturnar geti orðið brúnar eða gular, nema gerðar séu ráðstafanir til að skýla þeim. Skýlinguna er svo hægt að fjarlægja í maí eða þegar öll hætta á næturfrosti er liðin hjá.
Með vetrarhlýrri kveðju
Magnús Jónasson
Skrúðgarðyrkjufræðingur.
Skiptiborð: 540 3300
verslun@gardheimar.is
Opið frá kl 10 - 19 virka daga og 11 - 19 um helgar.
STIHL verslun opin frá kl 8.00-16.00 alla virka daga