Skip to main content
search
0

Ýmislegt sem getur verið að pottaplöntunum

Það er allt morandi í litlum svörtum flugum

Litlu svörtu flugurnar eru svarðmý. Þær gera pottaplöntum lítinn skaða en geta gert eigendur þeirra gráhærða. Svarðmý er oftast vísbending um ofvökvun, eða að einhvers staðar standi vatn. Flugan þarf standandi vatn til að verpa. Ef of mikið er vökvað stendur bleyta eftir í plöntunni þar sem eggin og lirfan getur lifað. Fyrsta skrefið er því að draga úr vökvun. Einnig getur hjálpað að vökva að neðan. Fylgist vel með mold til þess að vera viss um að vökva aldrei þegar moldin er enn blaut. Límgildrur henta vel til að góma fullorðnu flugurnar. Límborða er hægt að hengja við plöntur og vaska eða stinga í moldina.
Gamalt húsráð er að strá þunnu lagi af kanil yfir moldarlagið eða setja sandlag, svo lirfan komist ekki upp.
Einnig er hægt að eitra, þá með Húsa- og garðaúða eða öðru eitri, en það er alls ekki nauðsynlegt við þessari vá.

Laufblöð detta af

Ef laufblöð detta skyndilega af plöntu – jafnvel mörg í einu, án þess að nokkuð sjáist á þeim geta nokkrir hlutir verið að.
Lauffallið er oft viðbragð við snöggu áfalli.
Til dæmis mætti athuga hvort vökvað hafi verið með mjög köldu vatni.
Eða plantan lent í miklum kulda í einhvern tíma.
Einnig getur lauffall verið viðbragð við þurrki, þannig gott er að skoða jarðveginn og ef hann er þurr vökva oftar í framtíðinni.
Ef blöðin fúna eða skrælna aðeins áður en þau falla er líklegt að um ofvökvun eða of litla vökvun hafi verið að ræða.
Blaðfall getur einnig verið vegna einhverra meindýra og því er líka gott að skoða vel hvort eitthvað óæskilegt kvikt sé á plöntunni.
Á sama tíma er gott að hafa í huga að það er einnig eðlilegt að planta felli laufblöð stöku sinnum.

Laufblöðin verða brún á endanum og/eða brúnunum

Oftast má skýra brúna enda vegna of lágs loftraka. Algengt er að sjá þennan skaða á fagurgrænum laufplöntum sem þurfa góðan loftraka. Ráðið við því er að færa plöntuna þar sem súgur er minni, úða hana oftar og jafnvel fá rakatæki við hana.
Brúnir endar geta einnig verið vísbending um of litla vökvun (eða of mikla í einhverjum tilfellum) eða of mikinn hita.

Laufblöðin eru að skrælna

Oftast má skýra skrælnuð laufblöð vegna of lítillar vökvunar en of lágur
loftraki og mikill hiti getur einnig verið vandinn.

Laufblöðin eru undin

Undin laufblöð eru oftast vísbending um að of mikill hiti sé og of lágur raki (til
dæmis ef plantan er upp við heitan ofn).
Það getur líka verið merki þess að einhverjar óværur séu á plöntunni og því ætti einnig að skoða hana vel.

Það er brúnn blettur á laufblaðinu

Ágæt þumalputtaregla er að skaðablettur á brún laufblaðs sé líklegast vegna of lágs raka, en blettur á miðju blaðinu líklegast sólbrunni. Þetta er langt frá því að vera algilt. En ef stór brúnn skaðablettur er á miðju laufblaði er sól líklegasti sökudólgurinn og fyrsta ráð er að færa plöntuna lengra frá glugga.
Bletturinn getur einnig verið vísbending um of litla (eða einstaka sinnum of mikla) vökvun eða of mikinn hita og lágan raka.

Það eru litlir brúnir blettir á laufblöðunum

Ef blettirnir eru litlir á laufblöðum er ólíklegra að um sólskaða sé að ræða. Ef blettirnir eru dökkbrúnir og korkkenndir er líklegt að þeir séu vegna ofvökvunar. Ef blettirnir eru ljósir og þurrir eru líklegt að þeir séu vegna of lítillar vökvunar. Eins og með flestar skemmdir er einnig gott að athuga hvort eitthvað óæskilegt kvikt sé á plöntunni.

Laufblöðin eru gulleit

Gulleit laufblöð gætu líklega verið vegna of mikillar eða of lítillar vökvunar, þannig best er að skoða fyrst hvort moldin sé mjög þurr eða mjög blaut. Laufblöð geta einnig orðið gul í miklum súgi og kulda.
Gulleit laufblöð geta einnig verið vísbending um næringarskort, sérstaklega ef mörg laufblöð eru gul.
Á sama tíma er gott að hafa í huga að það er einnig eðlilegt að planta felli laufblöð stöku sinnum.

Blómknúppar falla af án þess að blómstra

Ef blómplanta verður fyrir einhverskonar áfalli er hennar fyrsta viðbragð að hætta við blómstrun. Að eyða þeirri orku ekki ef aðstæður eru ekki góðar. Það er því vísbending að eitthvað megi betur fara. Of lítil eða of mikil vökvun, ásamt og lágum loftraka, eða röngu hitastigi getur valdið því að blóm felli blómknúppa. Eins er gott að athuga hvort einhver væra sé á plöntunni.

Blómið mitt blómstrar ekki

Ef blómplanta blómstrar ekki ár eftir ár er hægt að athuga hvort nokkur atriði séu í lagi.
Í fyrsta lagi mun blómplanta ekki blómstra ef of dimmt er hjá henni, þannig hægt er að prófa að setja hana á bjartari stað.
Einnig er hægt að prófa að gefa henni fljótandi næringu fyrir blómstrandi plöntur, en það getur kallað á blómstrun.
Svo þarf einnig að hafa í huga að sumar plöntur blómstra ekki fyrr en þær fylla upp í pottinn og þröngt er um ræturnar. Dæmi um slíka plöntu er friðarlilja. Þegar friðarlilja er umpottuð má búast við að hún blómstri ekki í einhvern tíma eftir það. Ef plantan er í stórum potti er hægt að prófa að umpotta henni í minni pott og sjá hvort hún blómstri þá.

Blöðin lúta niður og hanga

Fyrst skal athuga hvort plantan sé þurr og vökva strax ef svo er. Oft er þetta merki þess að ekki sé vökvað nóg.
Hinsvegar getur það líka verið merki þess að of mikið hafi verið vökvað. Þá eru laufblöðin oft lin og þrútin, en einnig ætti að vera hægt að sjá það á moldinni.
Ef plantan öll virðist visna getur vandinn verið rótarfúi. Hann kemur upp ef moldin helst blaut eða of þurr lengi. Best er að taka upp plöntuna og hreinsa ræturnar vel (sem eru þá dökkar og fúnar) og setja í nýja mold (sem er hvorki mjög þurr né blaut). Það getur verið erfitt að ná plöntu til baka eftir að rótarfúi er kominn.
Að lokum gætu þetta einnig verið viðbrögð við einhverri væru og því gott að skoða plöntuna vel.

Blöðin ljós og slöpp

Ef plantan er lin og efsta lag hennar mjúkt og brotnar auðveldlega er líklegt að ofvökvun sé sökudólgurinn. Ef það er raunin er mikilvægt að leyfa moldinni að þorna sem allra fyrst, því plantan er farin að fúna. Setjið plöntuna á þurran og hlýjan stað þar sem moldin getur þornað hratt og dragið úr vökvun í framhaldinu.
Ef efsta lag („húð“) plöntunnar er enn hart en plantan sjálf ljós og slöpp gæti verið um of litla vökvun að ræða (sem sést þá á mold).
Líklegast er þó að hún sé á of dimmum stað og þurfi meiri birtu.

Plantan mín er að vaxa út í mjóum stilkum

Margar plöntur bregðast við of lítilli birtu með því að „leita“ að birtu með litlum mjóum stilkum. Þetta er algengt hjá t.d. þykkblöðungum þar sem þeir verða háir og grannir í stað þess að vera lágir og bústnir.
Færið plöntuna í meiri birtu.

Það er hvít skán ofan á moldinni

Hvít skán á mold er líklegast sveppumygla. Myglan er ekki mjög hættuleg plöntunni en er vísbending um að það sé vökvað of mikið. Dragið úr vökvun ef plantan þolir það. Ef plantan þarf svo mikinn raka er gamalt húsráð að strá þunnu kanillagi yfir moldina.

Það er grá slikja yfir laufblöðunum og vefur

Ef vefur er á plöntunni þarf ekki að örvænta alveg strax – það er gríðarlega margt sem spinnur vef sem getur verið á plöntunni þinni. Köngulær og mítlar geta verið agnarsmáir og fundið sér gott heimili í plöntunni þinni. Þeir munu flestir ekki gera plöntunni þinni neinn skaða og jafnvel halda burtu þeim værum sem gætu gert skaða.
Vefurinn getur hins vegar líka verið spunamaur – sem er ekki velkominn gestur. Ef um spunamaur er að ræða mun einnig sjást skaði á plöntunni sjálfri. Laufblöðin á plöntunni verða grá og mött. Spunamaurinn bítur og sýgur laufblöðin og skilur lítil tannaför eftir. Flekkótt slikja virðist því leggjast yfir blöðin. Ef spunamaur er á plöntunni einangraðu hana strax og skoðaðu leiðbeiningar varðandi skordýr hér að neðan.

Það eru hvítir hnoðrar á plöntunni

Hvítir hnoðrar sem líkjast bómull, en eru klístraðir eins og kandífloss, er ullarlús. Lúsin sjálf er silfurgráleit og getur verið svo agnarsmá að hún sést ekki, að því að vera um 0,5 cm löng. Lúsin sest sérstaklega á öll mót (þar sem blað mætir stilki, stilkur bol o.s.frv.) og undir laufblöð. Einangrið plöntuna strax og skoðið nánar leiðbeiningar um skordýr hér að neðan.

Það eru litlar brúngráar skellur á plöntunni

Tvennt kemur til greina ef það eru brúngráar skellur. Það er annaðhvort gamalt ör á plöntunni eða skjaldlús. Til að athuga hvort það sé er gott að sjá hvort hægt sé að kroppa skelluna af. Ef hún fer ekki af, eða brotnar af og skilur eftir sig sár á plöntunni, er skellan sár eða ör. Ef skellan fer af í einu lagi tiltölulega auðveldlega er líklegast um skjaldlús að ræða. Einangrið plöntuna strax og skoðið nánar leiðbeiningar um skordýr hér að neðan.

Það eru silfurgráir flekkir á laufblöðunum

Silfurgráir flekkir á blöðum og litlar svartar doppur ofan á laufblaði eru kögurvængjur. Einangrið plöntuna og skoðið nánar leiðbeiningar um skordýr hér að neðan. Þar sem kögurvængjurnar eru fleygar er mikilvægt að skoða allar aðrar plöntur vel.

Það eru litlar grænar flugur á plöntunni

Litlar grænar flugur eru blaðlýs. Ekki velkominn gestur en með auðveldari værum til að losna við. Einangrið plöntuna og skoðið nánar leiðbeiningar um skordýr hér að neðan.

Það eru litlir ormar/lirfur í moldinni

Litlar hvítar lirfur í moldinni er líklegast pottamor. Pottamor gerir plöntum lítinn skaða, en mörgum finnst þó óþægilegt að hafa hann. Gegn honum er hægt að dýfa plöntunni í heitt vatn (skoða skordýravarnir neðst) eða eitra í jarðveginum.

Það er könguló á plöntunni

Til hamingju, þú ert með náttúrulega skordýravörn. Köngulóin mun ekki gera plöntunni neitt og mun nærast á því sem gæti gert henni skaða.
Ef þú ert hinsvegar ekki hrifinn af nýja gestinum þínum getur þú fjarlægt hann með eyrnapinna eða töng. Einnig virkar almennt skordýraeitur, eins og Húsa- og garðaúði einnig á köngulær.

Það er vefur á plöntunni

Ekki örvænta alveg strax – það er gríðarlega margt sem spinnur vef sem getur verið á plöntunni þinni. Köngulær og mítlar geta verið agnarsmáir og fundið sér gott heimili í plöntunni þinni. Þeir munu flestir ekki gera plöntunni þinni neinn skaða og jafnvel halda burtu þeim værum sem gætu gert skaða.
Vefurinn getur hins vegar líka verið spunamaur – sem er ekki velkominn gestur. Ef um spunamaur er að ræða mun einnig sjást skaði á plöntunni sjálfri. Laufblöðin á plöntunni verða grá og mött. Spunamaurinn bítur og sýgur laufblöðin og skilur lítil tannaför eftir. Flekkótt slikja virðist því leggjast yfir blöðin. Ef spunamaur er á plöntunni einangraðu hana strax og skoðaðu leiðbeiningar varðandi skordýr hér að neðan.

Það eru litlir gulir hringir á blöðunum, eða annarskonar mynstur

Ljósgrænir eða gulir hringir, eða annarskonar greinilegt mynstur, er líklegast vírussýking á plöntunni. Einangrið plöntuna strax og reynið að staðfesta með að fletta upp að um vírussýkingu sé að ræða. Ef svo er er því miður lítið annað en að gera en að henda plöntunni þar sem engin lyf eru til gegn henni. Skoðið síðan vel hvort hún hafi breitt sér út til annarra plantna.

Close Menu