
Epla-, plómu-, peru- og kirsuberjatré
Skjól og staðsetning
Í upphafi er mjög mikilvægt að huga að skjóli í garðinum. Ávaxtatré eiga ekki möguleika á að mynda aldin ef þau eru í stöðugum barningi við vindinn. Tré, limgerði og skjólveggir skapa umhverfi þar sem aldintré þrífast. Í skjólinu skapast staðbundið veðurfar sem er oft nokkrum gráðum heitara en mælingar Veðurstofunnar segja til um. Þessi viðbótarhiti er mikilvægur þroska og vexti epla-, peru-, plómu og kirsuberjatrjáa. Það er því lykilatriði að velja trénu góðan stað, bæði bjartan og heitan.