Skip to main content
search
0

Risajúkka

Risajúkka – Yucca guatemalensis (Yucca elephantipes)

Risajúkka (Hermannshvíld) Yucca guatemalensis (Yucca elephantipes) er falleg planta sem auðvelt er að rækta hér, sé hún inni.  Langbest er að hafa hana í gróðurskála þar sem hún fær næga birtu og gott pláss. Risajúkkan er upprunalega frá Mið-Ameríku og í sínum heimahögum getur hún orðið allt að 10 m. á hæð. Svo stór verður hún auðvitað ekki innanhúss hér á landi.

Þessar plöntur þola töluverðan kulda og eru oft hafðar úti á verönd eða svölum yfir sumartímann. Júkkan þolir ekki frost svo það er eins gott að huga vel að veðri og taka hana inn ef hætta er á hinu minnsta frosti.  Á veturna hentar henni vel að vera í frekar svölu herbergi. Stofn Jukkunnar er ljósbrúnn á litinn og oftast 15 til 100 c.m. á hæð.  Plantan er þekkt fyrir sín stinnu, oddmjóu, grænu blöð sem eru c.a.15 til 30 c.m. löng og vaxa út frá stofninum í tígulegri hvirfingu. 

Risajúkkan getur hugsanlega blómstrað hér við albestu skilyrði og þá koma  hvít blómin út úr miðjum stofni á háum brúski. Það er þó frekar ósennilegt að hún blómstri innandyra. Hitinn fyrir hana yfir veturinn má alveg fara niður í 5 til 6 °C og á þeim tíma þarf að vökva hana c.a þriðju hverja viku og tína af henni öll blöð sem gulna. Á sumrin á hins vegar að vökva hana tvisvar til þrisvar í viku og setja fljótandi áburð í vatnið á tíu daga fresti fram á mitt sumar. Þá ætti að hætta að gefa áburð en halda samt áfram vökvuninni. Jukkunni líður best í frjóum, sandbornum jarðvegi. Það er mjög gott að úða vatni á laufblöðin hennar á sumrin. Hún vex c.a. 15 til 30 c.m. á ári fyrstu árin og því þarf að umpotta henni árlega meðan hún er ung en eftir það á tveggja til þriggja ára fresti. Það er auðvelt að fjölga henni bæði með græðlingum og rótarskiptingu. Plantan þolir illa mjög þurrt loft en kjörhiti fyrir hana er 10 til 15 °C.  Ef ykkur finnst þurfa að þurrka af blöðunum er allt í lagi að nota við það rakann klút.

Close Menu