
Orkídeur
Orkídeur, eða brönugrös, tilheyra einni stærstu ætt blómplantna með um 20. þús tegundir. Á Íslandi vaxa nokkur brönugrös, svo sem friggjargras og hjónagras. Þær orkídeur sem ræktaðar eru sem pottaplöntur eru flestar frá Suðaustur-Asíu.
Margar tegundir er nú hægt að fá en algengust er Phalaenopsis orkídean, Dísarbrana. Þær umræðuleiðbeiningar sem koma hér fram eiga sérstaklega við Phalaenopsis, en geta þó átt við aðrar tegundir einnig.
Staðsetning
Phalaenopsis er gott að hafa á mjög björtum stað. Þó ber að varast að hafa þær í suðurglugga nema yfir hávetur. Gott er að færa hana milli glugga milli árstíða þannig að hún fái góða birtu á veturna en brenni ekki á sumrin. Þær þola einhvern kulda, en hitinn ætti ekki að fara neðar en 15°C, og ekki yfir 27°C. Sumar tegundir stofu-orkídea þurfa hitamun milli dags og nætur til þess að blómstra aftur, og því henta kaldar en sólríkar gluggakistur þeim vel.
Orkídeur vilja allar hærra rakastig en gengur og gerist á íslenskum heimilum (sérstaklega um vetur). Því er gott að hafa þær á stað þar sem súgur er lítill og ekki of þurrt loft (til dæmis ekki beint yfir heitum ofni).
Loftraki
Orkídeur vilja hátt rakastig. Ef rakastigið er of lágt geta loftræturnar farið að skrælna og þær verið tregar til að blómstra, eða fellt blómknúppa. Gott er að hafa rakabakka undir orkídeum (bakka með vikri eða steinum þar sem vatn getur staðið) eða rakatæki nálægt, og úða þær reglulega.
Vökvun: Phalaenopsis orkídean, og flestar aðrar orkídeur, eru ekki í jarðvegi sem heldur raka vel. Hún þarf því að fá tækifæri til þess að drekka upp raka án þess þó að standa í vatni, en því getur fylgt fúi. Því er hentugast að dýfa orkídeunni og láta hana standa í vatni í um klukkustund. Að lok þess tíma sést að ræturnar sem standa berar eru orðnar þykkar og grænar. Mikilvægt er að nota ekki ískalt vatn, og ekki hitavatnsblandað vatn. Látið leka vel af plöntunni. Ef hellt er að ofan er gott að forðast að vatn fari á blöðin og þá sérstaklega á miðju plöntunnar. Ef vatn stendur þar er hætta á fúa. Því er oft ráðlagt að vökva frekar á morgnanna þannig vatn á blöðum gufi upp yfir daginn.
Gott er að dýfa þeim um vikulega, en það getur breyst eftir aðstæðum. Um hásumar og blómgun þurfa þær oft meira vatn, en minna um vetur.
Áburður
Orkídeur þurfa sérhæfða næringu. Ekki er mælt með að nota almenna pottaplöntunæringu. Hægt er að fá bæði fljótandi orkídeunæringu og pinna sem komið er fyrir í pottinum og brotna niður hægt og rólega. Ef pinnar eru settir er vökvað venjulega og vatnið látum um að brjóta þá niður. Ólíkt flestum öðrum stofuplöntum er ráðlagt að gefa þeim líka einhverja næringu yfir vetrarmánuðina. Ef fljótandi næring er notuð er gott að blanda henni við vökvunarvatn í annað hvert skipti sem vökvað er, um sumar, en um 6 vikna fresti um vetur.
Val á potti
Orkídeupottar eru oftast hærri og mjórri en venjulegir blómapottar. Það hentar plöntunni betur. Best er ef loft getur leikið um ræturnar og því er mál að hafa annaðhvort botn með götum og síðan stærri baka undir, eða hlífðarpott sem er nokkuð stærri en plast-undirpotturinn. Einnig er gott að ljós skíni á rætur orkídea og því getur glær eða næstum glær pottur verið góður.
Umpottun
Gott er að umpotta á um 2 ára fresti í stærri pott, eða eftir þörfum. Orkídean fær ekki næringu úr þeim jarðvegi sem hún er í og því þarf ekki að skipta honum út fyrir þær sakir. En það getur komið upp fúi eða þörungur í kurlinu, og þá þarf að skipta því út eða hreinsa vel. Flestar Phalaeonopsis orkídeur eru í hörðu kókoskurli þegar þær eru keyptar. Hægt er að nota það kurl áfram svo lengi sem það er hreint eða kaupa meira. Einnig er hægt að gera blöndu af grófum vikri og mosa til þess að sjá um dren og rakadrægni. Flestar orkídeur lifa það ekki af að fara í almenna pottaplöntumold. Ef um aðra tegund en Phalaenopsis er að ræða er best að skoða jarðveginn sem hún var upprunalega í og reyna með mestu að endurgera hann. Þegar plöntunni er umpottað er hún tekin úr pottinum og ræturnar varlega hreinsaðar. Ef græn slikja er á þeim er hægt að baða þær mjúklega upp úr volgu vatni til að ná henni af. Ekki stækka pottinn meira en eina stærð (um 2cm+).
Passið að loft geti leikið um ræturnar og að jarðvegurinn pakkist ekki þétt upp við ræturnar.
Blómstrun
Orkídea við réttar aðstæður getur verið í blóma meirihluta árs. Hins vegar getur verið list að fá trega orkídeu til að loksins blómstra. Til þess eru nokkur ráð.
Í fyrsta lagi þarf að sjá til þess að grunnþörfum hennar sé mætt. Ef hún þornar um of eða er ekki að fá næga birtu eða næringu hefur hún ekki orku í blómstrun.
Hver blómstöngull á Phalaeonpsis getur blómstrað 2-3 sinnum. Því er ekki nauðsynlegt að klippa hann niður eftir fyrstu blómgun (en þó ráðlagt eftir þá seinni). Það getur hins vegar reynst auðveldara að fá nýja blómgun á nýjum stöngli en þeim gamla og sumir ræktendur hafa það sem reglu að klippa alltaf blómstöngla í lok blómgunar.
Þegar blómstöngull er klipptur er best að miða við lægstu liðamót (við stöngullinn).
Ef orkídea hefur ekki blómstrað í langan tíma er gott fyrsta verk að færa hana í meiri birtu.
Ef orkídeunæring hefur ekki verið notuð til þessa skal byrja að nota hana á u.þ.b. 2 vikna fresti (6 vikna um vetur).
Úðið plöntuna reglulega til að halda uppi raka. Hægt er að setja upp rakabakka eða rakatæki.
Ef orkídean er enn treg er hægt að kalla fram blómstrun með hitamun milli dags og nætur. Um 10°C munur milli dags og nætur í 2 vikur, mun ýta undir blómstrun hjá flestum tegundum orkídea, þar á meðal Phalaeonopsis. Hins vegar geta hitabreytingar, og súgurinn og þurrkurinn sem þeim fylgja, farið illa með Phalaenopsis og því þarf að fylgjast með þeim ef þessi leið er farin.