
Júní er hálfnaður og loksins er hitastigið farið að stíga upp á við og minna á sumar. Það er mesta furða hvað gróðurinn hefur lítið látið þennan kulda á sig fá og júníblómin blómstra nú hvert af öðru. En hvaða plöntur eru það helst sem skarta sínu blómskrúði á þessum tíma?
Júní er tími vatnsbera og goðalykla.Vatnsberar eru af sóleyjaætt og hafa líka verið nefndir sporasóleyjar. Þeir hafa það óorð á sér að vera fulliðnir við að dreifa sér um allt og því ekki velkomnir í öllum görðum. Þó eru til vatnsberategundir sem haga sér skikkanlega og leggja ekki garðinn undir afkomendur sína. Þeir fyrstu til að blómstra eru blævatnsberi og stjörnuvatnsberi. Blævatnsberinn er lágvaxin tegund, varla meira en 30 cm á hæð með tvílitum bláum og hvítum blómum. Til eru sortir með hvítum og bleikum blómum líka, sumar enn smávaxnari en aðaltegundin. Stjörnuvatnsberinn er meðalhár með risastórum blómum á mælikvarða vatnsbera sem eru annað hvort tvílit, hvít og blá eða einlit blá. Sá einliti er líka þekktur undir nafninu vorvatnsberi. Báðar þessar tegundir sá sér lítið og hef ég aldrei fundið sjálfsáða stjörnuvatnsberaplöntu í garðinum mínum. Sem er eiginlega synd því hann er svo dásamlega fallegur. Þegar líða tekur á seinni hluta mánaðarins taka svo garðavatnsberarnir við með sínum undursamlega fallegu og litríku blómum. Ég á ljúfar æskuminningar af sporasóleyjunum í garðinum hans afa sem mér fannst að hlytu að vera þau dásamlegustu blóm sem fyrirfinndust á jörðinni. Og þeir eru enn í miklu uppáhaldi hjá mér. Þeir eru kannski ekki alveg eins stilltir og fyrrnefndu tegundirnar; ég hef fengið nokkrar dásamlega fallegar, sjálfsáðar plöntur af þeim, en þeir eru ekkert að leggja garðinn undir sig. Skógarvatnsberinn sér um það.
Goðalyklar er önnur ættkvísl sem er mjög áberandi um þetta leiti. Þetta eru lágvaxnar plöntur af maríulykilsætt sem flestar eiga heimkynni sín í Norður-Ameríku. Þær eru allar með bleikum eða hvítum blómum, harðgerðar og dásamlega fallegar. Ég er með fimm tegundir í garðinum mínum sem eru allar mjög keimlíkar en þó eru tvær sem skera sig aðeins úr. Hjartagoðalykillinn er sá eini sem blómstrar hvítum blómum, sem eru mun minni en á hinum tegundunum. Laufið er líka áberandi tennt en hinar tegundirnar eru allar með heilrenndum blöðum. Brekkugoðalykill ber þó af þeim öllum að mínu mati. Mjög gróskumikill með fallega ljósbleikum blómum.
Vorblómstrandi lyklarnir eru nú búnir en aðrir taka við. Nú eru það kínalykilsdeildin og maríulykilsdeild sem eru í aðalhlutverkum. Í kínalykilsdeildinni eru það kínalykill, klukkulykill og fellalykill sem eru byrjaðir að blómstra og harnarlykillinn í maríulykilsdeild. Allt saman úrvalsgóðar og harðgerðar garðplöntur sem þarf ekkert að hafa fyrir.
Páskaliljurnar eru flestar að fölna og túlipanarnir hafa tekið við af þeim. Mörgum finnast páskaliljurnar heldur ræfilslegar þegar blómgun er lokið og því er gott ráð að klippa burtu blómstönglana eftir blómgun. Þá fer heldur ekki óþarfa orka í að þroska fræ og laukarnir safna meiri forða fyrir blómgun næsta vors. Það sama á við um túlipanana þegar þeir hafa lokið blómgun sinni. Það er þó mikilvægt að klippa laufið ekki burt fyrr en það fer að fölna því annars ná laukarnir ekki að safna forða fyrir næsta vor.
Aðrar tegundir sem eru einkennandi fyrir júnímánuð eru silfursóley, gullhnappar, ýmsar deplur eins og t.d. kósakkadeplan, jakobsstigar, blásól og í steinhæðinni eru fjallablöðkurnar að byrja að opna sín ævintýralega fallegu blóm ásamt ýmsum lágvöxnum bláklukkum.
Rannveig Guðleifsdóttir
Garðaflóra