
Blómstra í júlí
Á meðal þeirra blóma sem blómstra í júlí eru:
- Íris, dæmi um íristegundir sem blómstra í júlí eru rússaíris, tjarnaríris, engjaíris og bretaíris.
- Blágresisættkvíslin er risastór og inniheldur mikinn fjölda úrvals góðra garðplantna. Á meðal þeirra sem blómstra um þetta leiti eru garðablágresi, roðablágresi, liðablágresi, skrautblágresi, armeníublágresi, mýrablágresi og í steinhæðinni; dalmatíublágresi, blóðgresi, grágresi og tíbetblágresi.
- Drottningablóm (nellika). Nellikurnar, sem eru í aðalhlutverki í steinhæðinni núna. Fjaðradrottning og dvergadrottning eru þær algengustu, báðar til í fjölda mismunandi litbrigða frá hvítu og bleiku yfir í rautt. Keisaradrottning er önnur virkilega falleg tegund. Murur eru líka áberandi í júlí. Í byrjun júlí skartar jarðaberjamuran sínum eldrauðu blómum og þegar líða tekur á mánuðinn taka aðrar við eins og silkimura, blendingsmura og blóðmura. Aðrar fjölærar plöntur sem blómstra í júlí eru t.d. skrautlúpínur, tyrkjasól, draumsól, fingurbjargarblóm, kínahnappur og friggjarlykill.
Rósir
Í júlí fara fyrstu rósirnar líka að blómstra. Þyrnirósirnar og aðrar villirósir eins og t.d. fjallarósin eru fyrstar og fljótlega bætast fyrstu ígulrósirnar við. ‘Wasagaming‘ og ‘Agnes‘ eru yfirleitt þær fyrstu til að byrja að blómstra. Á meðal annarra rósa í blóma í júlí eru ‘Louise Bugnet‘, Maigold‘, ‘Pike‘s Peak‘ (Hringbrautarrósin)‚ gullrós ‘Bicolor’ og Dornrós.
Blómstrandi runnar
Af blómstrandi runnum eru sýrenurnar og ýmsir hvítblóma kvistir eins og t.d. birkikvistur og stórkvistur sennilega mest áberandi í júlí. Aðrir fallegir runnar í blóma núna eru stjörnutoppur og brárunni ‚Siska‘. Svo styttist í að ljúfur kúlutyggjósilmur snækórónunnar leggist yfir garðinn.
Rannveig Guðleifsdóttir