Skip to main content
search
5

Íslenskt birki – harðgert og nægjusamt

Birkiskógar

Birki er eina trjátegundin sem hefur myndað samfellda skóga hér á landi eftir að ísöld lauk. Nöfnin birki eða björk má rekja aftur í sanskrít og merkja þau hið bjarta eða ljósa tré. Hér er líklega vísan til hins ljósa stofns trésins. Gerð barkarins er einkennandi fyrir ættkvíslina en hann er rauðbrúnn eða hvítur og flagnar í þunnan spæni.

Birki er harðgert

Birki vex eingöngu á norðurhveli jarðar, sumar tegundir mjög norðarlega og hátt til fjalla. Útbreiðsla þess er um alla norðanverða Evrópu, langt austur í Asíu og langleiðina að Kyrrahafi. Hér á landi vaxa tvær tegundir villtar, ilmbjörk og fjalldrapi, einnig er til blendingur þessara tegunda sem nefnist skógarviðarbróðir. Erfðabreytileiki birkis er mikill og geta tré frá sömu fræmóður verið mjög ólík í vexti og blaðlögun. Þetta sýnir að genabreyti leiki er mikill þótt líkur bendi til að hann sé fátæklegri en við landnám. Bent hefur verið á að landnámsmenn hafi líklega höggvið stærstu og bestu trén fyrst og með því móti grisjað úr tré með gen sem báru í sér erfðaeiginleika til mikils vaxtar. Eftir hafa orðið hríslur og kjarr. Fjalldrapi er allur smávaxnari en ilmbjörkin og stundum skriðull.

Birkifræ

Björkin er tré eða runni með þéttum greinum. Bolurinn er hlutfallslega grannur miðað við hæð trésins. Börkurinn er þunnur, ljós eða rauðbrúnn, og flagnar af stofninum. Ræturnar liggja grunnt og þurfa súrefnisríkan jarðveg og dafna því ekki vel í blautum jarðvegi. Blöðin eru á stilk sem er um helmingur blaðsins á lengd, egg- eða tígullaga og sagtennt. Blómin eru í reklum. Fræin eru lítil hnoð með himnuvæng. Þau eru fislétt og eru um 1,5 til 2 milljónir fræja í hverju kílói. Þrátt fyrir smæð fræjanna berast þau sjaldan langt frá móðurplöntunni. Fræin geymast illa nema við bestu aðstæður.

Birki er nægjusöm trjátegund sem getur vaxið við lægri sumarhita en flestar aðrar trjátegundir en nær hins vegar ekki góðum þroska nema í frjóum jarðvegi. Hæðarmörk birkis yfir sjó eru um 550 metrar og það verður 80 til 100 ára gamalt og ætla má að það geti náð um 20 metra hæð við góðar aðstæður.

Lækningamáttur birkisins

Fyrr á tímum var birki notað í ýmsum tilgangi. Úr berkinum má búa til skrautmuni og hann var notaður til að súta skinn. Seyðið úr berkinum þótti gott við niðurgangi og seyðið var ómissandi við magn- og kraftleysi, matarólyst og til að verjast sviða á barnsrössum. Börkurinn þótti einnig góður á brunasár ef hann var blandaður ósöltu smjöri.

Vilmundur Hansen

Close Menu