
Hvernig er plöntum umpottað
Þegar plöntu er umpottað er hún sett í stærri pott og moldin endurnýjuð. Þumalputtareglan er sú að stækka pottinn um eina stærð (u.þ.b. 2 cm stærri í þvermáli). Ekki er ráðlagt að stækka pottinn meira því annars gæti plantan vaxið úr sér.
- Gott er að grípa mjúklega um plöntuna og byrja að losa pottinn frá henni. Hægt er að þrýsta á pottinn og gjugga honum til þess að losa hann.
- Plantan er tekin upp og varlega leyst úr rótarflækjunni.
- Setjið moldarlag í nýja pottinn og setjið plöntuna ofan á það þannig hún standi í réttri hæð (með nægri mold undir) og í miðjunni.
- Hellið síðan mold með fram plöntunni þannig að plantan sé stöðug í pottinum. Ekki þjappa moldinni um of þar sem hún þarf að vera loftkennd í kring um ræturnar.
- Gott er að láta pottinn standa í vatni í um klukkutíma til þess að draga í sig vökva og síðan láta renna vel af.