
Húsráð gegn meindýrum
Ýmsum húsráðum og brögðum er hægt að beita gegn meindýrum áður en gripið er til þess að nota skordýraeyði. Kostir og gallar eru við hverja aðferð en gott er að prófa sig áfram og vera undir það búinn að sumar aðferðir geti valdið plöntum einhverjum skaða.
Sítrónudropar og uppþvottalögur/grænsápa
Hægt er að blanda vistvænan skordýraeyði sjálfur. Algengasta blandan er örfáir dropa af sítrónudropum og lífrænum uppþvottalegi eða grænsápu í vatn. Almennur ólífrænn uppþvottalögur hentar ekki. Blöndunni er síðan úðað yfir plöntuna. Passa að úða vel undir laufblöð og á öll mót þar sem meindýr halda sig gjarnan.
Hafðu í huga að sápan getur einnig brotið upp vaxhúð plöntunnar og því geta komið skemmdir á blöð ef sápan situr á laufblöðum. Hægt er að sporna gegn því með því að skoða plöntuna vel eftir að blandan hefur fengið að sitja í einhverja daga.
47° bað
Garðyrkjufræðingurinn Hafsteinn Hafliðason mæli með því að dýfa
plöntum í 47°C vatn í 20 mínútur til að losna við þaulsetin kvikindi eins og skjald- og ullarlús, kögurvængjur og spunamítla. Á þeim óendanlega brunni fróðleiks sem facebook hópurinn hans Stofublóm inniblóm pottablóm hópurinn segir hann
„Plantan með potti og öllu er þá sett á bólakaf í 47°C heitt vatn í 20 mínútur. Halda vatninu á bilinu 45-47°C á meðan. Það má vera ögn af uppþvottalegi í vatninu. Á eftir eru plönturnar skolaðar vel með mjúkri bunu undir handsturtunni á baðinu og látnar standa þar meðan vatnið er að síga vel af þeim og plönturnar rétta sig af. Flestar plöntur þola að fara í vatn upp að 50°C án þess að skaðast, en þær geta orðið svolítið lúpulegar á eftir, misst nokkur lauf kannski. En flestar lifa þær áfram frískar og sprækar lausar við óværuna.“
Það er hinsvegar gott að hafa í huga að það getur verið snúið að sjá til að hitastigið fari ekki yfir 50°C og ef það gerist getur sést mikið á plöntunni. Einnig þola sumar tegundir ekki svo miklar hitabreytingar.
Loka í poka yfir nótt
Ef um mjög skæða sýkingu er að ræða eða fleygt meindýr úða sumir efni yfir plöntu (þá annaðhvort skordýreyði eða heimagerðri blöndu) og setja poka yfir. Halda pokanum lokuðum í nokkra tíma eða yfir nótt. Þannig kemst meindýrið ekki burt og efnið gufar ekki upp áður en það nær að verka á meindýrin.
Skola vel og týna af
Ekki er alltaf þörf á að grípa til stórræðisaðgerða gegn sýkingu. Það getur oft verið nóg, ef sýking er nýkomin fram eða er væg að handhreinsa plöntuna. Hægt er að nota pensil eða eyrnapinna til að fjarlægja meindýrið með spritti. Setja hana í sturtu eða bala og skola hana vel, strjúka yfir og undir blöð og stilka. Gott er að halda plöntunni í einangrun og skoða hana svo vel í kjölfarið. Egg og lítil meindýr sjást ekki berum augum og því þarf að sýna þolinmæði.
Kanill og sandur
Ef eitthvað kvikt er í mold eða jarðveg er húsráð að strá þuna lagi af kanil eða sandi yfir yfirborðið. Sandurinn kemur oft í veg fyrir að væran komist upp á yfirborðið, en margar deyja við það. Kanillinn þjónar sama tilgangi en er auk þess sótthreinsandi. Þetta getur því verið gott ráð gegn svarðmýi og pottamor eða öðru sem maður finnur í moldinni.
Taka afleggjara og henda plöntu
Ef sýking er langt komin eða aðstæður þannig að ekki er hægt að leggjast í nokkra vikna vinnu við að uppræta sýkingu er oft ekkert annað í stöðunni en að henda plöntunni. Áður en það er gert er hins vegar hægt að taka afleggjara og dauðhreinsa hann. Oft er mikið auðveldara að hreinsa einn afleggjara en alla plöntuna. Af flestum plöntum er hægt að taka afleggjara, hvort sem það er hliðarsproti með rót (sem þá er hægt að dýfa í vatn og handþvo) eða klippa hluta af með rótarskoti. Þannig er hægt að feta milliveg milli þess að henda plöntunni og halda henni. Fylgjast þarf þó vel með afleggjaranum ef eitthvað skyldi hafa lifað af á honum.