Skip to main content
search
0

Grasflötin – iðagræn og gróskuleg

Ýmsir standa í þeirri trú að gras vaxi af sjálfum sér og þurfi því litla sem enga umhirðu. Grasið í garðinum því oft sú plöntutegund sem fær hvað minnsta athygli. Þetta er röng hugsun því til að fá fallega grasflöt þarf að huga vel að henni alveg eins og öðrum gróðri í garðinum. Helstu kostir grassins er að það þolir talsvert traðk, er mjúkt undir fæti, endurnýjar sig sjálft og hefur fallegan lit.
 Grös þurfa milli 10 til 15 sentímetra þykkt lag af góðum jarðvegi til að vaxa og dafna vel. Sandblönduð mold hentar vel fyrir grös auk þess sem hún þjappast vel og auðvelt er að slétta hana. Gott er að gefa 6 til 8 kíló af tilbúnum áburði á hverja 100 fermetra sem er dreift jafnt yfir vaxtatímann. Flestar grastegundir eru ljóselskar og þrífast illa í skugga.
Þeir sem eru óþolinmóðir og vilja grasflötina tilbúna strax á fyrsta sumri eiga að leggja þökur því sáning er seinlegri. Við tyrfingu skal byrja á því að leggja beina röð hringinn í kringum flötina. Síðan eru þökurnar lagðar hálf í hálft og götum lokað með bútum. Ekki skal ýta þökunum of þétt því við það getur myndast holrúm undir þeim og blettir sem ekki ná að skjóta rótum. Að þökulögn lokinni skal valta flötina og vökva.
Við sáningu þarf jarðvegurinn að vera hæfilega rakur og nota skal um það bil tvö og hálft kíló af fræi á hverja 100 fermetra. Fyrsta árið eftir sáningu verður umgengni um lóðina að vera í lágmarki en það tekur þrjú ár fyrir sáninguna að ná fullum þroska.
Sláttur er hluti af viðhaldi grasflatarinnar. Ekki skal slá of snöggt því blaðmassinn verður að vera nógur til að sjá rótunum fyrir næringu. Æskilegast er að slá oft og reglulega.

Close Menu