Skip to main content
search
0

Gaman í garðinum

Garðyrkja er skemmtileg eða að minnsta kosti á hún að vera það. Margir garðeigendur leggja mikið á sig til að búa öllum plöntunum í garðinum kjöraðstæður, setja skuggaplöntur þar sem mestur skuggi er, alpaplönturnar norðan megin og binda upp hávaxnar jurtir svo þær fjúki ekki um koll í roki. Þeir gæta sín á því að gefa plöntunum réttan áburð, gullregnið fær smáaukaskammt af kalki og alparósin slettu af súrum áburði.

Safnhaugnum er snúið tvisvar í viku, bletturinn sleginn reglulega og túlípanarnir bundnir upp eftir blómgun. Sumir ganga jafnvel svo langt að raða blómunum samkvæmt reglum litahringsins og eins læra menn latnesku nöfnin á öllum plöntunum sínum til að geta slegið um sig þegar aðrir garðaáhugamenn koma í heimsókn.

Fallegir garðar krefjast mikillar vinnu og viðhalds og í sumum tilfellum vaxa garðarnir eigendum sínum yfir höfuð og verða að kvöð. Menn fá verki í hnén og bakið og í verstu tilfellum þorir fólk ekki í sumarfrí af hræðslu við að illgresið taki yfir meðan það er í burtu. Þegar svona er komið hættir garðurinn að vera til ánægju og breytist á ánauð og þá er ekkert gaman í garðinum lengur.

Hvernig væri þá að breyta til, gefa sér lausan tauminn og lífga upp ágarðinn með alls kyns skringileg heitum. Þetta má til dæmis gera með því að leggja minni áherslu á beinar línur og hreinan stíl og leyfa hluta garðsins að vaxa villt. Af hverju ekki að setja litla tjörn með plastöndum í garðinn, gosbrunn eða lítinn eldbrunn, fuglahræðu eða styttur í garðinn. Einnig má koma fyrir lítilli álfafjölskyldu í einu horninu og fylla burknabeðið af bleikum flamingófuglum úr plasti. Það má líka lífga upp á garðinn á veturna með marglitum plastblómum og gervitrjám sem standa í blóma allt árið og gefa garðinum sumarlegt útlit allan ársins hring.

Garðeigendur eiga að vera óhræddir að prófa eitthvað nýtt, sleppa fram af sér beislinu og gefa sér frelsi til smekkleysis annað slagið.

 

Close Menu