Skip to main content
search
0

Forvarnir gegn meindýrum

Forvarnir gegn meindýrum

Gott er að taka föstum tökum þegar sýking kemur upp en best er að koma í veg fyrir að það gerist yfir höfuð.

Nokkurra ráð til að forðast að sýking komist upp í pottaplöntum

  • Skoða allar plöntur vel áður en þær eru keyptar.
    Það er ekki alltaf hægt að sjá sýkingu ef hún er skammt komin. Hins vegar er gott að venja sig á að skoða vel allar nýjar plöntur áður en þær koma inn á heimili. Gott er að hafa í huga að flest meindýr halda sig undir laufblöðunum, á æðum laufblaðs eða á liðamótum (þar sem laufblað mætir stilki, stilkur grein, og grein boli).
  • Skola plöntur og hreinsa þegar komið er heim
    Önnur góð regla er að skola allar nýjar plöntur og hreinsa lauf. Gott er að fara með plöntuna í sturtu og skola hana með eins sterkri bunu og hún þolir. Hægt er að strjúka eftir æðum og mótum, þar sem meindýr halda sig oftast.
  • Einangra allar nýjar plöntur
    Allar nýjar plöntur ættu að vera í einangrun í einhvern tíma áður en þær eru settar í nálægt öðrum plöntum. Ef sýking er í nýrri plöntu ætti það að sjást fljótt en það getur verið mjög leitt ef sú sýking kemst í allar aðrar plöntur. 1-2 vikur er oftast nægur tími til að sjá hvort sýking sé í plöntunni. Að þeim tíma liðnum skoðar maður plöntuna vel og skolar jafnvel einu sinni enn.
  • Passa rakastig
    Planta sem býr við góð skilyrði getur sjálf varist mörgum sýkingum. Stærsti vandi hér á landi er oft hvað rakastig er lágt. Með því að úða reglulega yfir plöntuna eða setja rakatæki nálægt henni er hægt að verja hana gegn sýkingum.
  • Þrífa plöntur reglulega
    Pottaplönturnar okkar fá ekki þá rigningu sem þær eru vanar og fara því að safna ryki og óhreinindum. Það er því gott að þrífa þær reglulega. Þær geta þá andað betur, eiga auðveldara með ljóstillífun og líta mikið betur út. Að skoða eða strjúka af plöntum getur einnig verið nóg til að losa við sýkingu sem er á fyrstu stigum. Ef plantan er ekki stór og þung er best að fara með hana í sturtu og skola hana með eins sterkri bunu og hún þolir. Ef erfitt er að gera það er hægt að taka blautan klút og strjúka yfir blöð að neðan og ofan.
  • Skoða plöntur reglulega
    Gott er að skoða reglulega allar plöntur til að sjá hvort eitthvað sé kvikt í þeim. Þegar það er gert þarf að hafa í huga að flest meindýr halda sig undir laufblöðum, á æðum eða á liðamótum (þar sem blað mætir stilki, stilkur grein og grein bol).

Hafa í huga að:

  • Hvítir hnoðrar – ullarlús
  • Brúngráar skeljar – skjaldlús
  • Verpt og krumpuð laufblöð og skemmd – blaðlús
  • Blöð orðin mött og vefur á þeim – spunamítill
  • Silfurgráir flekkir á laufblöðum – kögurvængjur

Einnig ætti alltaf að skoða plöntu vel ef henni hrakar án þess að augljóst sé hvað hafi komið upp á. Það gæti vel verið vegna einhversskonar sýkingar

  • Hvenær er kominn er tími til að henda plöntu
    Það er aldrei auðvelt að henda plöntu – og oft borgar sig að sýna vandamálinu þolinmæði. En ef sýkingin er langt komin getur það besta í stöðunni verið að henda plöntunni og koma þannig í veg fyrir að sýkingin breiði sér út til annarra plantna. Ef maður er ekki með aðstöðu til að einangra plöntuna er einnig betra að henda henni en að hætta á að sýkingin breiði sér út.
  • Skipta út mold eftir sýkingu
    Það getur verið góð regla að skipta út mold á plöntu sem hefur verið sýkt, jafnvel þó sýkingin virðist vera farin. Það geta leynst egg í jarðveginum eða lirfur. Það ætti að henda gömlu moldinni út.
  • Þrífa potta eftir sýkingu í mold
    Undir- og yfirpottar ættu að vera þrifnir vel eftir sýkingu. Egg og lirfur gætu leynst á þeim og því er góð regla að þvo vel eða spritta potta eftir að sýking kemur upp
Close Menu