Skip to main content
search
0

Fjölæringar – gróðursetning og umhirða

Fjölærar plöntur er hægt að fá í fjölmörgum blómlitum, mismunandi hæð, með stórum eða litlum blöðum, skuggþolnar og sólelskar. Fjölbreytileikinn er svo mikill að það helst valkvíði sem veldur töf á vali á plöntum til að setja í garðinn.
Áður en fjölærar jurtir eru gróðursettar verður að undirbúa beðið vel með því að stinga það upp, losa um og hreinsa moldina og blanda hana með ferskir mold eða lífrænum áburði niður á 30 til 40 sentímetra dýpi.     
 Raða skal fjölæringunum í beð eftir lit og blómgunartíma þannig að eitthvað sé í blóma frá vori og fram á haust.
 Hæfilegt bil milli plantna er breytilegt eftir fyrirferð þeirra og getur verið frá nokkrum sentímetrum og upp í rúman metra. Miða má við að plöntur sem eru 10 til 30 sentímetrar á hæð sé plantað með 15 til 25 sentímetra millibili. 30 til 60 sentímetra háar plöntur þurfa 25 til 60 sentímetra millibil og plöntur sem eru 60 til 100 sentímetra háar veitir ekki af 50 til 100 sentímetra millibili eða meira.
Sé jarðvegur í beðinu frjósamur nægja 40 til 50 grömm af alhliða garðáburði á hvern fermetra fyrrihluta sumars og hálfur skammtur í lok júlí. Hnefafylli af lífrænum áburði yfir beði annað hvert ár er einnig til bóta og gott er að raka hann niður.

Vilmundur Hansen

Close Menu