
Hvernig hægt er að hækka loftraka
Almennt er rakastig íslenskra heimila of lágt fyrir pottaplöntur. Ráðlagt rakastig fyrir flestar pottaplöntur er 40-60% og hærra fyrir sumar.
Of lágt rakastig getur valdið skemmdum á laufblöðum, þau skrælnað eða orðið brún á endunum. Lauffagrar plöntur eins og calatheur þurfa hátt rakastig til að haldast fallegar og heilbrigðar. Hægt er að halda rakastigi uppi með að úða plöntur reglulega. Best er að úða daglega yfir plöntuna alla. Einnig er gott að velja staðsetningu slíkra plantna vel, ekki nálægt glugga eða hurð.
Ef það er ekki nóg er hægt að útbúa rakabakka undir plöntuna; stór undirskál með vikri eða smásteinum þar sem vatn stendur og hækkar rakastig.
Ef planta þarf sérlega hátt rakastig er einnig hægt að hafa rakatæki eða lítið ilmolíutæki hjá á henni.