Skip to main content
search
0

Nokkrar tegundir aldinjurta til að rækta í gróðurhúsum

Ræktun í gróðurhúsum

Þeir sem búa svo vel að eiga upphituð gróðurhús eiga möguleika á að rækta upp sitt eigið aldinmeti. Þar er um ýmislegt að velja. Tómatar, paprikur, melónur og eggaldin eru meðal margra skemmtilegra aldinjurta sem gaman er að spreyta sig á.  Þær eru ættaðar frá hitabeltinu og þurfa talsverðan hita og birtu til að geta gefið af sér uppskeru.

Melóna 

Cucumis mefo er einær planta sem verður um 2 m. á hæð og myndar margar hliðargreinar.  Hún þrífst best við 18-25 °C. Hún þarf frjóan jarðveg og talsvert nitur og er yfirleitt sáð beint í uppeldispottinn.  Forræktunin tekur um það bil 6 vikur en þá þarf að setja við hana prik eða uppbindingu til stuðnings. Það er líka hægt að rækta melónu lárétta en gróðurhúsið nýtist betur ef hún er uppbundin. Bil á milli plantna ætti að vera um 40 c.m. og þær þurfa reglulega vökvun og góða áburðargjöf á 10-14 daga fresti. Melónur þarf yfirleitt að handfræva.

Paprika 

Capsicum annuum var. glossum er runnakennd, einær, verður c.a. 80 c.m. á hæð og c.a. 50 c.m. að umfangi.  Aldin hennar eru 3-15 c.m. á hæð en 3-8 c.m. að þvermáli.  Litur aldinanna er ýmist grænn, rauður, gulur, eða appelsínugulur.  Þetta er hitabeltisplanta og henni líður vel í 20°C hita og í miklum raka, 70-80%.  Hitinn má aldrei fara niður fyrir 15°C né upp fyrir 30°C. Ef hitinn er of mikill myndar hún færri aldin.  Paprikan vill frjóan djúpan jarðveg, 8-12 c.m. potta en hefur ekki mikla þörf fyrir nitur.  Það tekur 8-10 vikur að forrækta papriku. Henni er sáð í bakka og dreifplantað í uppeldispotta eftir 2.-3. vikur.  Mikilvægt er að halda háum hita meðan á spírun stendur (23-25°C) en lækka svo hitann í 20°C eftir dreifsetningu.  Hæfilegt bil milli plantna er 45-50 c.m. á hvern veg. Paprikan þarf uppbindingu og  jafnan jarðvegsraka.  Hún er sérstaklega viðkvæm fyrir spunamaur og blaðlús.

Tómatar

Lycopersicon escukentum  eru einærir.  Þeir hafa tvennskonar vaxtarlag. Annarsvegar eru það einstofna einstaklingar (klifurplöntur) og  hins vegar runnakenndir. Á einstofna plöntum er blómaklasinn efstur en á þeim runnakenndu myndast margar hliðargreinar  sem allar enda í blómaklasa. Tómatar vaxa best við 20-24°C.  Ef hitinn fer niður fyrir 16°C eða upp fyrir 27°C vaxa þeir mjög lítið. Tómatplöntur þurfa mikla birtu og  frjóan vel framræstan jarðveg.  Það er nauðsynlegt að sótthreinsa eða skipta um jarðveg árlega til að forðast sjúkdóma og meindýr.  Tómatplantan þarf djúpan jarðveg og það tekur 8 vikur að forrækta hana.  Henni er sáð í bakka og síðan, þegar fyrstu kímblöðin sjást eru  plönturnar   látnar í 12 c.m. botnlausa uppeldispotta. Ágætt bil á milli plantna er c.a.45 c.m. þannig er hægt að hafa góðan gang til að komast vel að þeim.  Aldinin eru hnöttótt, c.a.5-10 c.m. að þvermáli, oftast rauð.  Plönturnar þurfa uppbindingu, yfirleitt með vír en hann þar að vera í það minnsta 2 m. langur. Tómatplöntur  þurfa góða vökvun en meðan þær eru ungar geta þær fengið rótarfúa og  grámyglu séu þær vökvaðar of mikið.   

Eggaldin 

Solanum melongena er skammlífur runni og aldinin eru oftast nýtt á fyrsta ári.  Plönturnar verða 60-70 c.m. háar og 50 c.m. að ummáli. Aldinin eru talsvert breytileg að lögun, stundum egglaga, perulaga eða kringlótt.  Þau vega 200-500 gr. og eru dökkfjólublá eða gulgræn en einnig eru til hvít.  best er að rækta þau í 24°C hita að deginum en hitinn má fara niður í 18°C á næturnar.  Mismunur á hita dags og nætur má helst ekki vera meiri en 5°C.  Plantan þarf frjóan, rakan jarðveg og hefur miðlungs niturþörf.  Sá skal í hólfaða bakka en síðan, þegar plönturnar hafa náð c.a. 8 c.m. hæð,er þeim dreifplantað í 12 c.m.  uppeldispotta.  Þegar fyrstu blómin springa út er tímabært að panta í beð og hafa bilið á milli plantnanna 40-50 c.m. svo hægt sé að hafa gott aðgengi að hverri plöntu.  Það getur verið þörf á að binda plönturnar upp annað hvort við stuðningsprik eða nota vír til að hjálpa þeim uppá við.  Á tveggja vikna fresti er gott að dreifa alhliða áburði á beðið.  

Nú er um að gera að láta reyna á ræktunarhæfileikana við ræktun á aldinmatjurtum.
Gangi ykkur vel.
 
Með aldinkveðju
Magnús Jónasson
Skrúðgarðyrkjufræðingur.

 

Close Menu