Skip to main content
search
2

Fyrsti í vorsáningu

Fyrstu skrefin

Í janúar er upplagt að byrja að huga að sáningu á fjölærum plöntum sem þurfa kuldaskeið til að spíra. Yfirleitt dugar 6-8 vikna kuldaskeið. Þá er hægt að láta pottana standa úti fram í miðjan mars og ætti fræið í flestum tilvikum að spíra vel þegar það er tekið inn í hlýjuna. Dæmi um tegundir sem þurfa kaldörvun eru blágresistegundir og ýmsar tegundir maríulykla.

Þá er líka rétti tíminn til að sá ýmsum tegundum af sumarblómum sem þurfa langan uppeldistíma og ætla ég að gera helstu tegundunum skil hér á eftir.

Stjúpur og fjólur

Stjúpur og fjólur eru ein vinsælustu sumarblómin, enda harðgerð og standa í blóma allt sumarið. Þau eru tvíær en með því að sá í janúar er hægt að fá blóm í maí – júní. Nefna má nokkrar góðar tegundir af stjúpum; Chianti, Chalon Supreme Purple Picotee’og Silver Wings. Góðar fjólu tegundir eru; Magnifico, Yesterday, Today and Tomorrow með blómum sem skipta lit úr hvítu yfir í fjólublátt og Penny Sunrise með skær appelsínugulum blómum.

Ljónsmunnur

Ljónsmunnur er fjölær planta en of viðkvæm til að lifa af veturinn hér og því ræktaðuð sem sumarblóm. Hún þarf langt uppeldi og því nauðsynlegt að sá henni í janúar eigi hún að ná að blómstra í byrjun sumars. Flottar tegundir í blönduðum litum eru: Frosted Flames með hvítmynstruðu laufi og Circus Clowns.

Brúðarauga

Brúðarauga þarf varla að kynna en því er best sáð í janúar. Fræið er örsmátt og plönturnar smáar eftir því í fyrstu. Það er mikil þolinmæðisvinna að dreifplanta smáplöntunum en ágætt að setja þrjár plöntur saman í pott og það kemur vel út að blanda saman mismunandi litum. Cascade og Pendula sortir eru með hangandi vöxt en það er einnig hægt að fá teigðan vöxt á plöntur sem eru ætlaðar í beð með því að rækta þær inni við stofuhita. Það er ágætt að klípa ofan af plöntunum nokkrum sinnum til að þær þétti sig vel. Pendula Sapphire er með bláum blómum með hvítu auga, Blue Cascade er með ljósblá blóm, Blue Splash er með hvítum blómum sem eins og nafnið bendir til eru með óreglulegum, bláum slettum. Virkilega flott með einlitum bláum tegundum. Blue Wings er afburðar falleg með mjög stórum bláum blómum en er sérstaklega viðkvæm fyrir þurrki og þarf því að passa að vökva hana reglulega. Red Cascade er með fjólurauðum blómum. Riviera Lilac er yndislega falleg tegund með lillableikum blómum. White Lady og White Fountain eru báðar með hreinhvít blóm.

Close Menu