
Mig hefur lengi dreymt um að rækta vorgull (Forsythia) í garðinum mínum. Þessa dásamlega gulu runna sem eru svo áberandi á vorin í nágrannalöndunum og við þekkjum sem ómissandi páskagreinar. Ég hélt þó að það væru draumórar einir að svona runni gæti þrifist, hvað þá blómstrað hér, en þegar ég rakst á plöntur til sölu í garðyrkjustöð fyrir tveimur árum VARÐ ég að prófa.
Umrædd tegund heitir Forsythia ovata ‘Tetragold‘ eða marsgull. Það er upprunnið í Kóreu og er mun harðgerðara en þær tegundir sem helst eru ræktaðar í nágrannalöndunum. Ég þorði nú ekki annað en að planta því undir suðurvegg svo það myndi nú ekki væsa um greyið og það er skemmst frá því að segja að það þrífst bara ljómandi vel! Kelur nánast ekkert og skartar nú sínum fallegu gulu blómum.
Það er nú ekki um auðugan garð að gresja í úrvali vorblómstrandi runna og trjáa hér á landi og því alltaf ánægjulegt að finna viðbót í þann takmarkaða hóp. Töfratréð er fyrsti runninn til að blómstra, jafnvel í lok mars og stendur í blóma fram í maí. Í lok apríl – byrjun maí blómstrar svo rósakirsið. Blómgun marsgullsins lendir þarna á milli og getur það byrjað að blómstra í apríl sé tíðarfar gott. Og þar með er lokið upptalningu vorblómstrandi runna og trjáa á Íslandi. Kannski er ein eða tvær tegundir sem mér yfirsést um, en það er ekki fyrr en í lok maí – byrjun júní sem fleiri tegundir taka við. Þá er komið sumar.
Sem betur fer er nóg úrval af fjölærum plöntum og laukplöntum sem gefa tilverunni lit á þessum tíma. Krókusa og páskaliljur þekkja flestir, en páskaliljurnar standa einmitt í blóma núna og lífga heldur betur upp á garðinn. Páskaliljur eru nefnilega ekki bara páskaliljur, úrvalið er ótrúlega mikið í stærð, blómgerð og litum, frá hreinhvítu yfir í appelsínurautt.
Vorblómstrandi lyklar skarta líka sínu fegursta þessa dagana og þar er af nógu að taka. Fyrstu lyklarnir byrja að blómstra í apríl og svo bætast stöðugt við fleiri tegundir eftir því sem líður á maímánuð. Ég ætla ekki að telja þá alla upp hér, en ætla aðeins að minnast á þær tvær deildir maríulykla sem eru hvað mest áberandi núna. Marílykilsættkvíslin er nefnilega svo stór og fjölbreytt að henni hefur verið skipt niður í nokkra flokka, eða deildir. Í vorlykladeild eru, eins og nafnið bendir til, þær tegundir sem eru fyrstar til að blómstra, margar hverjar um miðjan apríl. Þær eru allar harðgerðar og úrvals góðar garðplöntur. Huldulykill og elínarlykill eru dæmi um tegundir í þessari deild, og er elínarlykilsyrkið‚ John Mo‘ það fyrsta til að blómstra í mínum garði. Hin deildin er árikludeildin en tegundir þeirrar deildar byrja að blómstra í byrjun maí. Frúarlykillinn er sennilega þekktasta og útbreyddasta tegund deildarinnar enda eru til fjölmörg yrki af honum í öllum litum að bláum undanskildum. Aðrar úrvalstegundir í þessari deild eru mörtulykill og silfurlykill.
Það er of langt mál að telja upp allar þær plöntur sem blómstra á þessum tíma en auk lyklanna eru m.a. ýmsar laukplöntur og tegundir af sóleyjaætt í blóma núna s.s. skógarblámi, geitabjöllur og balkansnotrur. Af nógu er að taka og víst að það gleður augað og lyftir sálinni þegar tilveran breytir um lit úr dauflegum gráma vetrarins í glaðlega liti vorsins.