Skip to main content
search
0

Jarðvegur undirstaða grósku

Til að gróður dafni vel verður að vanda vel allan undirbúning jarðvegsins sem hann á að standa í því árangur ræktunarinnar er að stórum hluta háður gæðum jarðvegsins. Fyrst og fremst eru það eðliseiginleikar og frjósemi jarðvegsins sem skipta máli, en þeir eiginleikar eru aftur á móti háðir jarðvegsbyggingu og samsetningu næringarefna. Jarðvegsbygging ræðst af holurými jarðvegsins. Æskilegast er að holurnar séu bæði stórar og smáar. Í smáu holunum geymist vatn og súrefni, en þær stóru sjá um að leiða regnvatn niður jarðveginn.

Plöntur þurfa vatn til að vaxa og dafna eðlilega. Jarðvegur þarf því að vera hæfilega rakur. Blautur jarðvegur er kaldur og loftlítill og hefur slæm áhrif á rótarvöxt og hægir á vexti ofanjarðar. Í blautum jarðvegi verður starfsemi jarðvegsgerla og smádýra lítil og það hægir á rotnun lífrænna efna en virk starfsemi jarðvegslífvera bætir mjög ástand jarðvegsins. Starfsemin flýtir fyrir rotnun plöntuleifa þannig að hringrás næringarefna í jarðvegi verður örari.

Sýrustig jarðvegs ræðst af magni óbundinna vetnisjóna í honum. Sýrustig er táknað með pH. Þegar sýrustigið er á milli pH 0 og 7, er sagt að jarðvegurinn sé súr, en basískur sé pH milli 7 og 14. Jarðvegur með pH 7 er hlutlaus. Sýrustig er hærra eftir því sem pH talan er lægri en basískara eftir því sem talan er hærri. Sýrustig jarðvegsins getur haft mikil áhrif á plönturnar. Áhrifin eru bæði bein og óbein og eru óbeinu áhrifin meiri. Beinna áhrifa gætir minna þótt sýrustigið sveiflist innan vissra marka. Það er ekki fyrr en jarðvegur er orðinn mjög súr eða mjög basískur að dregur að ráði úr vexti.

Lífrænn áburður gerir öllum jarðvegi gott þar sem hann er ríkur að næringarefnum sem leysast hæfilega hratt upp í jarðveginum og hann er auðugur að lífrænum efnum sem byggja upp jarðveginn.

Vilmundur Hansen

Close Menu