
Gróðursetning trjáplantna
Fyrir gróðursetningu trjáplantna er nauðsynlegt að stinga upp beð eða holu niður á 40 til 80 sentímetra dýpi allt eftir því hvort um limgerðisplöntur er að ræða eða stærri tré. Hæfileg beðdýpi fyrir limgerðisplöntur er 40 til 60 sentímetrar og 60 til 80 sentímetrar fyrir stærri tré. Hæfilegt breidd beðsins er hins vegar 80 til 100 sentímetrar. Helst verður að koma trjáplöntum niður sem allra fyrst, séu þær ekki í mold.
Hæfilegt bil milli trjáplantna
Hæfilegt bil milli limgerðisplantna er þannig að tvær til þrjár plöntur séu á lengdarmeter. Bil milli stofntrjáa fer aftur á móti eftir því hvað trén verða há og fyrirferðamikil og getur verið frá þremur til sex metrum. Aldrei má gróðursetja tré dýpra en þau stóðu áður hvort sem það var í potti eða beði. Meðan á gróðursetningu stendur verður að gæta þess að plönturnar verði fyrir sem minnstu hnjaski og að moldin haldist sem mest á rótunum. Greiða skal vel úr rótunum þegar plönturnar eru settar niður og gæta þess að trén standi lóðréttar í holunni. Síðan skal moka jarðveginum að og þjappa honum varlega að rótunum.
Séu tré orðin yfir einn og hálfur metri á hæð er nauðsynlegt að setja staur niður með þeim sem stuðning fyrstu árin á meðan þau eru að róta sig og koma sér fyrir. Eftir að plöntunni hefur verið komið fyrir á sinn stað skal vökva vel og gæta þess næstu dag að ræturnar þorni ekki.