
Steinhæðaplöntur eiga það allar sameiginlegt að þrífast best í rýrum, sendnum jarðvegi með góðu frárennsli þ.e. jarðvegi sem er ekki mjög rakaheldinn. Þær eru lágvaxnar og margar hverjar veðurþolnar og henta því vel þar sem skjól er lítið. Þó þær séu ekki háar í loftinu eru margar þeirra þó með fallegustu garðplöntum sem völ er á og þurfa afskaplega litla umhirðu.
Af þeim plöntubeðum sem ég er með í garðinum mínum er upphækkaða steinbeðið það beð sem ég þarf minnst að sinna. Það þarf ekki að vökva það nema í mestu þurrkum, það þarf ekki að vesenast með prik og garn til að binda upp plöntur og einhverra hluta vegna er arfinn varla sjáanlegur þar. Kannski af því það er orðið svo þétt plantað að það sést hvergi í mold. Og þar er eitthvað í blóma frá maí fram í október.
Nokkrar fallegar tegundir sem eru blómstrandi núna eru sunnuklukka, runnagríma, sápujurt, geldingahnappur, steindepla, fagursmæra, rósasmæra og hraunbúi.
Meðfram götunni er gömul steinhleðsla úr hraunhellum sem var lítið augnayndi og langaði mig mikið til að skipta henni út fyrir eitthvað flottara. Þangað til mér datt í hug að planta steinhæðaplöntum þar líka. Nú hefur steinhleðslan öðlast nýtt líf og hefur reynst besti staður fyrir stjörnublöðkur og aðrar plöntur sem eru annars viðkvæmar fyrir vetrarumhleypingum. Hallinn tryggir gott frárennsli og þrífast þær því ljómandi vel þrátt fyrir að fá ekkert vetrarskýli.
Í steinhleðslunni eru stjörnublöðkurnar að byrja að blómstra ásamt sómagrímu og brekkudeplu. Þar vaxa líka nokkrar íslenskar tegundir eins og ljónslappi, lambagras, blóðberg, burnirót og holtasóley sem sóma sér allar vel sem garðplöntur. Það er vart hægt að hugsa sér viðhaldsminna blómaskrúð.
Rannveig Guðleifsdóttir