
Þyrnirósir
Þyrnirósir vaxa best í frekar sendnum og rýrum jarðvegi. Fái þær of mikinn áburð setja þær alla orku í blaðvöxt og blómgun verður lítil eða engin. Þyrnirósin er með hvítum, einföldum blómum. Hún vex villt á örfáum stöðum á Íslandi en er ekki mikið til skrauts og blómstrar sjaldan. Þær plöntur sem vaxa villtar eru alfriðaðar.
Þyrnirósablendingar
Þyrnirósablendingar komu fyrst fram um aldamótin 1800 og voru mjög vinsælir á 19. öld. Þegar síblómstrandi rósayrki komu fram á sjónarsviðið döluðu vinsældir þyrnirósanna og mörg yrki sem voru í ræktun hafa glatast. Þær eiga samt fullt erindi í íslenska garða þar sem þær eru afar harðgerðar og blómstra á undan flestum öðrum rósum. Blómin geta verið einföld eða fyllt, oftast hvít eða bleik, en það eru líka til nokkur yrki með gulum og rauðbleikum blómum.
Nokkur góð yrki sem óhætt er að mæla með
- ‘Totenvik’ með hvítum, hálffylltum blómum.
- ‘Katrín Viðar’ með óvenju stórum, hvítum, einföldum blómum sem eru með fölbleikri slikju þegar blómin eru að springa út.
- ‘Juhannusmorsian’ sem er finnskt yrki með fylltum, ljósbleikum blómum.
- ‘Poppius’ með fylltum, bleikum blómum.
- ‘Glory of Edzell’ með dökkbleikum, einföldum blómum með kremhvítri miðju.
- ‘Red Nelly’ með rauðbleikum, einföldum blómum.
- ‘Harison‘s Yellow’ sem er blendingur þyrnirósar og gullrósar með sterkgulum, fylltum blómum sem lýsast ekki með aldrinum.
- Þyrnirósayrkja má svo finna ýtarlegri lista yfir fjölda þyrnirósayrkja sem hafa verið reynd hérlendis.
Rannveig Guðleifsdóttir