
Nokkur góð ráð um safnhaugsgerð
- Blandið grasi, laufi, barri, mosa, visnum blómum, trjágreinum og fleiru saman við eldhúsúrgang. Ef notaður er lokaður kassi má auk þess setja fisk- og kjötafganga saman við.
- Tætið og malið úrganginn eins mikið niður og kostur er, því fínni sem hann er þeim mun hraðar brotnar hann niður. Gott er þó að innan um sé grófara efni, því að þá loftar betur í gegnum hauginn.
- Hrærið upp í haugnum með reglulegu millibili. Best er að nota til þess sérhannaðan loftunarstaf. Sumir loftunarstafir eru auk þess þannig útbúnir að þeir breyta um lit eftir hita. Sé notaður þannig stafur er líka hægt að fylgjast með því að hitinn í haugnum sé nægur til að að niðurbrotið gangi eðlilega fyrir sig.
- Fylgist með því að rakinn í haugnum sé nægur. Niðurbrotið stöðvast ef of þurrt verður í haugnum. Vökvið eftir þörfum og blandið safnhaugshvata saman við vökvunarvatnið.
- Ferskt gras má ekki fara yfir 30% af rúmmáli haugsins
- Ef vond lykt er af safnhaugnum getur það stafað af því að í hann hafi verið settur mjög niturríkur eða of blautur úrgangur. Þurrkið hauginn upp með því að blanda í hann heyi, sinu, þurru laufi eða sagi.
Úrgangur úr garðinum
- Gras, mosi (þó ekki um of)
- Lauf og barr af trjágróðri
- Greinar og börkur af tjágróðri (stærri greinar þarf að kurla)
- Visin blóm og blöð af jurtum
- Illgresi (þó ekki húsapuntur, njóli, skriðsóley og hóffífill)
- Afskurður af rótmeti
- Grænmeti og ávextir
- Aska úr grillinu
- Þurrt hey, sina
Úrgangur úr eldhúsinu
- Blöð af salati og káli
- Rótmeti og blöð af því
- Hýði af ávöxtum, kartöflum o.fl.
- Brauðafgangar
- Mulin eggjaskurn
- Telauf og tepokar
- Eldhúspappír (tættur)
- Einnig má setja fisk- og kjötafganga í safnhauginn ef hann er lokaður og reglur sveitafélagsins leyfa það
Gangi þér vel !